Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta mjög sérstakt, eins og ég nefndi, ekki síst að teknu tilliti til þess hversu mörg ár þetta mál hefur verið hér á dagskrá. Gjarnan er það þannig að dómsmálaráðherra hefur bent á félags- og vinnumarkaðsráðherra og sagt: Hann er með þessi mál til meðferðar. Ég hef heyrt hæstv. nýsköpunarráðherra tala um mikilvægi þess að þetta sé gert. Við heyrum ákall úr atvinnulífinu. Við vitum hverjar þarfirnar eru. Þegar hv. þingmaður nefnir að erfitt sé að sjá fyrir sér hvað meiri hlutinn er að fara þá tek ég heils hugar undir það. Það er mjög erfitt að fá fram tilteknar hugmyndir. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þessi umræða sé bara einhvers konar fjarvistarsönnun inn í þetta samtal. Við vitum alveg hvaða pólar standa út af, t.d. veikleiki íslensk kerfis þegar kemur að því að viðurkenna menntun sem er annars staðar frá inn í íslensk störf. Maður hefur heyrt sögur af því að Íslendingar sem hafa lært í Póllandi komi til Íslands og fái menntun sína viðurkennda en Pólverji með sömu menntun kemur til Íslands og honum gengur mun erfiðlegar fá hana viðurkennda. Maður veltir því stundum fyrir sér þegar dómsmálaráðherra bendir á félagsmálaráðherra og félagsmálaráðherra bendir á dómsmálaráðherra hvort þetta fólk þekkist ekki og tali ekki saman. Það er nánast á þeim að skilja stundum að ef þau bara þekktu einhvern sem gæti breytt þessum anga sem ekki heyrir undir þeirra ráðuneyti þá væri staðan önnur.