Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Líkt og ég nefndi í ræðu minni hér áðan, og hef reyndar haft orð á nokkrum sinnum í umræðunni um þetta mál, þá stend ég föst í þeirri trú að stór hluti þeirra þingmanna sem hyggst greiða þessu jákvætt atkvæði sitt, mun samþykkja það í gegnum þetta þing, viti ekki um hvað það snýst, viti ekki hvað er verið að gera, trúi þeim sem segja að þetta sé nauðsynlegt til að straumlínulaga kerfið og gera það skilvirkt en viti ekki alveg um hvað það snýst. Ég hef því sett mér það markmið í þessari umræðu, hvað sem öðru líður — ég geri mér grein fyrir því að hér er meiri hluti sem ræður og hann mun ná þessu í gegn ef hann ætlar sér að ná þessu í gegn, en ég mun ekki geta sofið rótt yfir því nema ég geti fullvissað mig um að ég hafi a.m.k. gert tilraun til þess að útskýra fyrir fólki hvað það er að samþykkja. Það er það sem ég ætla að gera núna. Ég ætla að fara yfir þetta frumvarp. Ég ætla að útskýra fyrir fólki hvað það þýðir sem við erum að gera hér í þessu frumvarpi vegna þess að ég er búin að læra það af samtölum mínum við margt fólk að það er ekkert auðvelt að skilja það af lestri frumvarpsins einum saman.

Í 1. gr. frumvarpsins er verið að gera breytingar á 3. gr. laganna, núgildandi laga, þar sem er að finna ákveðnar skilgreiningar. Í 3. gr. laga um útlendinga eru skilgreiningar sem skipta máli fyrir túlkun á lögunum og það er verið að bæta við, fyrsti liðurinn í þessu frumvarpi snýst um að bæta við skilgreiningarnar, hugtakinu endurtekin umsókn. Núgildandi lög hafa ekki nein ákvæði um það hvernig skuli tekið á endurtekinni umsókn. Gott og vel, setjum inn í lögin ákvæði um það. Það eina sem er satt í þessu frumvarpi og greinargerð og máli flutningsmanna um að við séum að reyna að samræma löggjöfina einhvern veginn Evrópureglum er það að í Evrópureglugerð er ákvæði um endurteknar umsóknir og það eru ákvæði um endurteknar umsóknir í lögum flestra ríkja.

Það sem er hins vegar svo vitlaust við þessa tilraun meiri hlutans til að setja ákvæði í lögin um endurteknar umsóknir er að það er alls ekki tilgangur þessara ákvæða. Það sem er verið að gera með þessum ákvæðum er að það er verið að rugla saman, það er verið að skilgreina sem endurtekna umsókn, ekki þegar fólk hefur fengið synjun, flutt af landi brott og sækir um aftur, heldur það, sem í dag er talsvert algengt, þegar fólk biður um endurupptöku málsins vegna þess að það hafa komið fram ný gögn eða forsendur hafa breyst. Þetta er tvennt ólíkt. Endurtekin umsókn er ný umsókn. Skilgreiningin eins og frumvarpshöfundar hafa lagt til að hún verði er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Endurtekin umsókn: Þegar útlendingur, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd, leggur fram frekari gögn í máli sínu eða sækir um alþjóðlega vernd að nýju eftir að hann hefur fengið niðurstöðu í máli sínu.“

Seinni hlutinn er fínn: Sækir um alþjóðlega vernd að nýju eftir að hafa fengið niðurstöðu í máli sínu. Þetta: Leggur fram frekari gögn í máli sínu — 1. gr. frumvarpsins spilar nefnilega saman við 7. gr. frumvarpsins sem fjallar líka um endurtekna umsókn. Þar er hins vegar verið að bæta nýrri grein í lögin. Ég hef það stuttan ræðutíma að ég mun mögulega ekki ná að klára þetta en ég sé áhuga hv. þingmanns Diljár Mistar Einarsdóttur, sem er eini þingmaður meiri hlutans hér í salnum, á því sem ég er að segja, sem gleður mig af því að í þrái fátt heitar í þessari umræðu en að fólk hlusti á mig. Ég er ekki í neinu málþófi hérna, ég er að útskýra hvað þið eruð að samþykkja. Endurtekin umsókn samkvæmt þessari grein er ekki bara endurtekin umsókn heldur beiðni um endurupptöku. Alvarlegasti hlutinn í 7. gr. er síðasti málsliðurinn sem segir:

„Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku gilda ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd.“

Það er ekki bara verið að setja inn í lögin ákvæði um endurteknar umsóknir sem væri bara í fínasta lagi og besta lagi. Það er verið að afnema rétt fólks til að fá mál sitt endurskoðað ef forsendur breytast eða það koma ný gögn, og tími minn er búinn, to be continued — afsakaðu, forseti. Ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.