Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið og spurninguna. Ég er á þeirri skoðun að þessi regla sé bara nokkuð góð eins og hún er og það er alveg ljóst að hún fól í sér miklar umbætur þegar hún kom inn í lögin á sínum tíma. Það er líka ljóst að þessi regla hefur ekki verið til neinna vandræða þar til Covid-heimsfaraldurinn skall á. Ég ætla bara aðeins að lesa ákvæðið eins og það er í dag. Þó að heimild sé til að vísa máli frá, segir í lögunum:

„ …skal þó taka umsókn til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. “

Þegar einstaklingar hafa raunverulega tafið málið sjálfir hafa þeir ekki fengið efnismeðferð eftir þessa 12 mánuði; þá er endurupptöku synjað og ákvörðunin stendur, þú ert fluttur úr landi þó að það séu liðnir 12 mánuðir. Þetta á við um mál sem ég er ekki með fyrir framan mig, en ég get tínt þau til. Í málum þar sem fallist hefur verið á að umsækjandi hafi tafið málið sjálfur, t.d. þegar einstaklingar láta sig hverfa, láta ekki ná í sig í lengri tíma eða eitthvað slíkt — það er kannski fyrst og fremst þetta, þegar fólk lætur sig hverfa. Ég tek fram að í Dyflinnarreglugerðinni er t.d. sambærilegt ákvæði; þar er það að láta sig hverfa eina ástæðan sem getur rofið þessa fresti. Hins vegar hefur Útlendingastofnun reynt að beita þessu í alls konar tilvikum þar sem tafirnar eru ekkert á ábyrgð umsækjenda eins og t.d. þegar fólk framvísar fölsuðum skilríkjum eða segir rangt til um aldur, að mati Útlendingastofnunar, fer í gegnum aldursgreiningu; það er eitthvað sem er í málinu sem veldur því að það tekur lengri tíma. (Forseti hringir.) Kærunefndin hefur hins vegar ekki fallist á að þetta séu tafir á ábyrgð umsækjenda vegna þess að þetta eru ekki tafir á ábyrgð umsækjenda. Ef við orðum ákvæðið hins vegar eins og meiri hlutinn gerir í þessu frumvarpi þá verður allt tafir á ábyrgð umsækjenda — fluga flaug inn um gluggann hjá þér á fyrstu vikunni, það eru tafir á þína ábyrgð, og engin efnismeðferð.