Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

Viðbrögð stjórnvalda við verðbólgu.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hv. þingmaður reki þetta allt saman til íslensku krónunnar og mér þætti gaman að fá að eiga sérstaka umræðu um það hvernig hún skýrir þá verðbólguna í Evrópu, verðbólguna í löndunum í kringum okkur þar sem hún er víðast hvar hærri þrátt fyrir að þau lönd séu ekki með hina stórhættulegu íslensku krónu. Við getum ekki skellt skuldinni af verðbólgunni á íslensku krónuna. (ÞKG: …vextirnir.) Við verðum líka að átta okkur á því að ríkisstjórnin var með aðgerðir gegn þenslu í fjárlagafrumvarpinu, nákvæmlega eins og kynnt var og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því, með ákveðnu aðhaldi og með ákveðinni tekjuöflun. Ríkisstjórnin hefur líka gripið til aðgerða til að verja tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar. Ég þarf ekkert að minna hér á húsnæðisstuðninginn, ég þarf ekki að minna á hvernig við gripum strax inn í til að verja kjör þeirra sem fá greiðslur úr almannatryggingum þannig að það er alveg ljóst að við höfum verið á vaktinni. Því er núna spáð að verðbólgan hjaðni á árinu. Það er auðvitað risastórt verkefni fyrir okkur öll, (Forseti hringir.) ekki bara okkur hér heldur líka á vinnumarkaði, að allt geti gengið upp til þess að svo megi verða því að verðbólgan er auðvitað stærsti óvinur almennings í landinu.