Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

svör við fyrirspurnum.

[14:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að leita ásjár virðulegs forseta varðandi það að fá ekki svör við fyrirspurn. Þann 24. maí á síðasta þingi lagði ég fram fyrirspurn til dómsmálaráðuneytis um biðtíma eftir afplánun. Kannski voru þetta of fáir virkir dagar þangað til að þing fór í frí þannig að ég sendi sömu fyrirspurn inn þann 27. september á síðasta ári. Það hafa ekki komið nein svör við þessari fyrirspurn og það hafa ekki heldur komið neinar beiðnir um að framlengja hinn lögboðna 15 virkra daga frest sem ráðherrar hafa. Ég óska því eftir liðsinni virðulegs forseta við að athuga hvort búast megi við svörum eða hvort ráðuneytið ætli enn og aftur að hunsa þingið.