Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Vegna orða forseta um að eftir að ákvörðun hefur verið tekin í forsætisnefnd hafi borist einhverjar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun og Lindarhvoli, stjórn Lindarhvols, þá er þetta ekki einhver ákvörðun forsætisnefndar sem kemur út úr tóminu. Það var búið að senda tvö bréf frá forseta Alþingis, 28. apríl og 4. júní 2021, þar sem stjórn Lindarhvols var innt álits eftir því hvort það væri ekki óhætt að birta þessa greinargerð. Svaraði stjórn Lindarhvols því með bréfum, dags. 11. maí 2021 og 22. júní 2021. Í apríl 2022 er tekin ákvörðun um það í forsætisnefnd að birta greinargerðina eftir að búið er að tala við Ríkisendurskoðun, fjármálaráðuneytið, Lindarhvol og fleiri og að vandlega yfirveguðu og yfirlögðu ráði er tekin ákvörðun um það í forsætisnefnd að greinargerðin skuli birt. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir það virðist forseti einn beita neitunarvaldi í dag og neitar að birta greinargerðina.