Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þar sem ég sit í forsætisnefnd er ég tæplega að segja forseta tíðindi þegar ég lýsi því yfir að ég skil ekki af hverju ekki sé löngu búið að birta þessa greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Eins og farið hefur verið yfir hér var það ákvörðun forsætisnefndar í apríl á síðasta ári að birta skýrsluna. Sú ákvörðun var tilkynnt hagaðilum, stjórn Lindarhvols og öðrum og þeim var gefinn tveggja vikna tími, ekki til að taka í einhverja handbremsu heldur bara til að búa sig andlega undir það að þetta skjal myndi birtast. Það var ekki neitt annað sem átti að búa að baki. En svo fann forseti einhverja handbremsu og ég hef aldrei skilið nákvæmlega hvaða hagsmunir kalla sérstaklega á að grípa í hana vegna þess að í þessari skýrslu eru upplýsingar sem eiga erindi til almennings. Þetta eru upplýsingar sem varpa ljósi á embættisfærslur hæstv. fjármálaráðherra, mögulega. (Forseti hringir.) Við vitum það ekki alveg (Gripið fram í: … komin skýrsla.) af því að ekkert okkar hefur séð þessa útgáfu skýrslunnar. Forseti er búinn að sitja á henni í — hvað erum við að tala um mörg ár núna? (Forseti hringir.) Og þar af eitt ár eftir að forsætisnefnd öll samþykkti að birta skýrsluna.