153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, sem jafnframt er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sem sagði ekkert því til fyrirstöðu að taka málið inn milli 2. og 3. umr., umræðan væri tæmd svo að segja, og að gerðar yrðu breytingar á málinu. (Gripið fram í.) Þá spyr ég hv. þingmann: Hvað veldur fyrirstöðunni að upplýsa minni hlutann um þær breytingar sem þið hafið nú þegar tekið ákvörðun um að gera á málinu? Það er búið að upplýsa um einhverjar mögulegar breytingar, bæði hér í þingsal og í fjölmiðlum, en einhverra hluta vegna þá neitið þið ítrekað að svara spurningum okkar í minni hlutanum, hér í þingsal á hinum lýðræðislega vettvangi, fyrir allra augum, um hvaða breytingar það eru sem þið ætlið að gera á málinu. Hvaða umsagnir, hvaða nýju upplýsingar hafa komið eftir að málið var tekið út úr nefndinni? Við vorum með þessar upplýsingar áður, allar umsagnir. (Forseti hringir.) Hverju ætlið þið að breyta? Það er fullkomlega eðlilegt að spyrja þessarar spurningar af því að (Forseti hringir.) umræðan er í gangi. Óttist þið afleiðingarnar þegar við sjáum að breytingarnar eru engar?