153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í frétt á vefmiðlinum mbl.is í gær sagði, með leyfi forseta:

„Á Íslandi er einangrunarvist í gæsluvarðhaldi beitt óhóflega og ítrekað brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er til að mynda beitt gegn börnum og einstaklingum með fötlun og geðraskanir hér á landi en það ætti ekki að líðast.

Með óhóflegri beitingu einangrunarvistar brjóta Íslendingar m.a. gegn samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu með alvarlegum afleiðingum fyrir sakborninga og rétt þeirra til sanngjarnra réttarhalda.

Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu Amnesty International, „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“. Í henni er skorað á íslensk stjórnvöld, sem nú gegna formennsku í Evrópuráðinu, að skuldbinda sig til að koma á mikilvægum og tafarlausum umbótum þannig að einangrunarvist verði aldrei beitt í þágu rannsóknarhagsmuna.“

Í fréttinni segir áfram að aðdragandinn að þessari skýrslu sé sá að árið 2008 viðraði nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum áhyggjur sínar við íslensk stjórnvöld af óhóflegri beitingu einangrunarvistar hér á landi og gerði athugasemdir við fyrirkomulagið. Árið 2022 voru þessar áhyggjur ítrekaðar, þ.e. 14 árum síðar.

Forseti. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil verið meðvituð um óhóflega beitingu einangrunarvistar hér á landi og skaðsemi hennar. Þrátt fyrir það hafa að meðaltali rúmlega 80 einstaklingar verið læstir einir inni í klefum sínum, 22 klukkustundir á sólarhring, á ári hverju á árunum 2012–2021, þar á meðal börn og einstaklingar með þroskahömlun. Einu svörin sem stjórnvöld gefa eru þau að lögin séu í endurskoðun. Ljóst má vera að hér er um framkvæmd að ræða. Hvet ég stjórnvöld til að fara ofan í saumana á því hvers vegna framkvæmdin er með þessum hætti hér á landi í algeru trássi við það sem gengur og gerist í öðrum ríkjum og hætta hið snarasta þeim mannréttindabrotum sem bent hefur verið á.