153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að benda hv. þingmanni á að það er hans flokkur sem er með dagskrárvaldið og forgangsraðar eins og hann gerir hér og setur orkumálin greinilega á eftir útlendingamálunum á dagskrá. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem vill fyrst útlendingamálin, svo orkumálin. Mjög greinilegt, sést hérna á dagskrá þingsins, mjög flókið.

En mig langar aðeins að tala um heilbrigðiskerfið. Signý Hjartardóttir og sonur hennar, sem er heróín- og morfínfíkill í leit að lækningu, eru í baráttu við heilbrigðiskerfið. Það segir hérna í frétt Vísis og Stöðvar tvö, með leyfi forseta:

„Við erum búin að fara allan hringinn, alla vikuna, á alla þessa staði. Bráðamóttakan vísar á bráðageðdeildina. Bráðageðdeildin vísar á heilsugæsluna, þar færðu ekki tíma, þá ferðu á vaktina og situr þar í tvo tíma, en þar má ekki skrifa upp á róandi.“

Þetta er saga heilbrigðiskerfisins eins og hún birtist þeim sem eru að reyna að nota það. Signý sendi síðan nokkrum þingmönnum póst og fékk svar frá einum þeirra, sessunaut mínum, hv. þm. Jakob Frímanni Magnússyni, sem hjálpaði Signýju og kom syni hennar fram fyrir fimm mánaða biðlista á Vog sem er frábært fyrir Signýju og son hennar, að sjálfsögðu ekki alveg eins frábært fyrir þau sem þurfa að bíða aðeins lengur, en svona er heilbrigðiskerfið. Við erum með langan biðlista í þetta mikilvæga málefni. Hérna er heilbrigðisráðherra ekki lengur, hann er farinn, þannig að vonandi er hann að laga þetta, en ég veit ekki hvernig, því að við höfum ekki heyrt nein áform um neitt slíkt. Það er enn þá bara bráðamóttaka, bráðageðdeild, heilsugæslan, vaktin, sitja og bíða, útskrifaður, fær ekki neitt. Við fórum á Læknavaktina um daginn og ætluðum fá vottorð. Þar var sagt: Nei, við erum ekki með aðgang að kerfinu þannig að við getum ekki skrifað út vottorð. Þetta er allt svona, alltaf. Þetta er rosalegt. Við verðum að gera betur hér.