153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Árið gekk í garð með verðbólgu og vetrarhörkum. Matarinnkaupin eru dýrari, bensínið dýrara og fasteignalánin eru að hækka. Veðrið er á sama tíma þannig að Veðurstofan dælir út gulum, appelsínugulum og rauðum viðvörunum. Fólk veit að það er vissara að hlusta á ráðgjöf veðurfræðinganna, þeir hafa jú þekkinguna. En í kvöldfréttum í gær birtist hv. formaður efnahagsnefndar, Guðrún Hafsteinsdóttir, í viðtali um verðbólguna. Skilaboð hennar til þjóðarinnar voru skýr, með leyfi forseta: „Eins sárt og það er að segja það þá er fólk að eyða of miklu.“

Þetta er söguskýringin þrátt fyrir að allir og amma þeirra hafi bent á að það væri ekki heimsins besta hugmynd að senda Bjarna út með bensínbrúsa til að vökva verðbólgubálið. Gjaldahækkanir í boði ríkisstjórnarinnar eru núna stór þáttur í því að verðbólgan er að hækka aftur. Það er ekki hægt að breyta veðrinu í vetur en ríkisstjórnin getur haft áhrif á það hvernig verðbólgan þróast. Ríkisstjórnin rekur landið með 119 milljarða halla en talar um að það sé almenningur sem eyði of miklu, fari illa með sína fjármuni. Neytendasamtökin lýstu þessu ágætlega og bentu á að janúarútsölurnar í ár nái ekki að draga úr verðbólgu. Neytendasamtökin voru reyndar búin að vara við þessari niðurstöðu í haust og á þau ráð var ekki hlustað. Það var reyndar heldur ekki hlustað á BHM, Samtök atvinnulífsins eða ASÍ, eða okkur inni í þingsal. Það voru rauðar viðvaranir um áhrif þessara gjaldahækkana á verðbólguna og heimilin í landinu. Verðbólguhækkunin í janúar er ekki óvænt óveður. Hún lá í kortunum, sást í kortunum og er í boði ríkisstjórnarinnar. Verkefni ríkisstjórnarinnar er að berjast gegn verðbólgu en formaður efnahags- og viðskiptanefndar minnti mig á einhvern í fréttunum í gær. Þarna held ég að hafi birst sama týpa og Indriði í Fóstbræðrum sem bandar yfirleitt frá sér verkefnum með spurningunni: Og hver á að gera það? Á ég að gera það?