153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[16:07]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í rúm tvö ár hafa íbúar á Seyðisfirði árangurslaust leitað eftir samstarfi við sveitarfélagið vegna andstöðu meiri hluta íbúa við áform um sjókvíaeldi í firðinum. VÁ - félag um vernd fjarðar hefur reynt að halda hagsmunum íbúa og lýðræðislegu samtali við stjórnvöld á lofti. Í umræðunni í kringum sjókvíaeldi í Seyðisfirði hefur ítrekað verið bent á staðreyndir sem snúa að plássleysi í firðinum. Nú hafa svæðisráð og Skipulagsstofnun skilað af sér tillögu að framtíðarstrandsvæðaskipulagi Austfjarða til hæstv. innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar. Í fyrirliggjandi tillögu eru þrjú nýtingarsvæði innan helgunarsvæðis sæstrengja í Seyðisfirði, m.a. FARICE-1-strengsins, og benda gögn til þess að útreikningar Skipulagsstofnunar um nálægð við helgunarsvæði byggi hreinlega á rangri mælieiningu, landmílu en ekki sjómílu. Einnig hefur verið bent á að eldiskvíar séu settar á snjóflóðahættusvæði sem hefur verið skilgreint af Veðurstofunni. Þetta stenst auðvitað enga skoðun. Íbúar hafa beitt sér af þunga fyrir því að fallið sé frá þessum áformum en sú umræða hefur mátt sín lítils. Veigamikil rök í allri umræðu um sjálfstæði sveitarfélaga lúta að staðbundinni þekkingu. En hvers virði er þekking heimamanna þegar erlendir fjárfestar banka upp á? Það verður ekki sagt annað en að sveitarfélög í landinu hafi nýtt einmitt þetta sjálfræði til að ganga erinda fyrirtækjanna gegn vilja íbúa. Seyðfirðingar hafa um áratugaskeið unnið í ákveðna átt að uppbyggingu menntunar, menningar og ferðaþjónustu en sú uppbygging virðist vera í trássi við hið almenna uppbyggingarviðhorf sem einkennir svo mjög ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstiginu. Ég hvet hæstv. innviðaráðherra til að hlusta á vilja íbúa og standa með þeim í þessu máli.