153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[16:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Verðbólgan er auðvitað stærsti óvinur almennings, sagði hæstv. forsætisráðherra á Alþingi í gær. Það er mikið til í því þótt bæta megi við að fylgitungl verðbólgunnar á Íslandi, sem er miklu hærra vaxtastig en í nágrannalöndunum, er einnig skæður óvinur. Maður myndi ætla að það væri lágmarkskrafa ríkisstjórnar að berjast gegn þessum mikla óvini með öllum tiltækum ráðum en það er því miður ekki svo. Það er óumdeilt að ríkisstjórnin ber beina ábyrgð á hluta þeirra hækkana sem við sjáum nú. Ekki einu sinni ríflegar janúarútsölur ná að vega upp gjaldahækkanir ríkisstjórnarflokkanna, að ótöldum þeim áhrifum sem þetta ömurlega fordæmi hefur á aðra sem geta hækkað verð og álögur á almenning. Hitt er verra að eitt helsta einkenni stjórnarsamstarfsins, hinn sífelldi og alltumlykjandi ábyrgðarflótti, ræður líka för í baráttunni gegn óvininum mikla. Hæstv. forsætisráðherra sagði orðrétt í gær, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður talaði hér um ábyrgð á verðbólgunni og ég hlýt að minna á að Seðlabankinn ber auðvitað höfuðábyrgð, það er hans aðalhlutverk í lögum að verðbólgumarkmiði sé haldið.“

Ábyrgðin er sem sagt Seðlabankans. Hann ber höfuðábyrgð, sagði forsætisráðherra þegar bent er á að ríkisstjórnin þurfi að róa í sömu átt. Reyndar hefur seðlabankastjóri sagst hafa þungar áhyggjur af sívaxandi útgjöldum ríkissjóðs og bent á að ríkisstjórnin sé að gera verk bankans erfiðara. En er nema von að verðbólga hækki á Íslandi á sama tíma og hún er á niðurleið á evrusvæðinu þegar sjálfur forsætisráðherrann er ekki betur áttaður á hlutverki ríkisvaldsins í þessari baráttu? En Seðlabankinn sat svo sem ekki lengi einn með alla ábyrgðina í fanginu. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir, um verðbólguna að þótt sárt væri vissulega að segja það þá væri það nú samt svo að almenningur væri að eyða of miklu. Taumlaus og stjórnlaus útgjaldaaukning og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa sem sagt ekkert vægi. Þetta er á ábyrgð Seðlabankans og almennings í landinu. Verðbólgan er vissulega versti óvinur almennings en það er öllu verra að óvinurinn á sér bandamenn í Stjórnarráði Íslands.