Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég get alveg skilið að það skjóti skökku við í hugum margra að tala um rétt fólks til þess t.d. að þurfa ekki að framvísa bólusetningarvottorði, sem skilyrði er til að fljúga. Eins og þingmönnum meiri hlutans hefur verið tíðrætt um þá jú, samkvæmt lögum ber viðkomandi að yfirgefa landið. Það er hins vegar þannig að þegar einstaklingi er synjað um dvalarleyfi og hann óskar þess ekki að snúa aftur — stór hluti fer bara þegar hann fær synjun, vegna þess að hann á þess kost, það eru einstaklingar sem telja sig ekki eiga þess kost eða vilja það ekki af einhverjum ástæðum, yfirgefa landið — þá hafa stjórnvöld ákveðnar þvingunarheimildir. Stjórnvöld hafa tilteknar heimildir til þess að neyða fólk úr landi. Þessar heimildir eru í lögum, þær þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og það eru takmörk fyrir því og ég held að það séu takmörk fyrir því í hugum okkar allra hversu langt stjórnvöld mega ganga á okkar grundvallarmannréttindi til að framfylgja lögum og þetta gildir alls staðar. Þetta gildir um alla borgara alls staðar, ekki bara um útlendinga sem, ég ætla bara að þóknast meiri hlutanum og nota orðin neita að yfirgefa landið.

Ég ætla að halda aðeins áfram með umsögn Rauða krossins um þetta frumvarp þar sem félagið er að fjalla um 4. gr. frumvarpsins varðandi auknar heimildir lögreglu til að afla heilsufarsupplýsinga frá heilbrigðisyfirvöldum um umsækjendur sem er verið að vísa úr landi. Rauði krossinn leggst gegn þessari breytingu, gerir athugasemdir við þær í nokkuð löngu máli en ég ætla að reyna að stytta þær og skýra hér, ekki síst vegna þess að þetta er í löngu máli og nokkuð lögfræðilegu í áliti Rauða krossins. Ég gríp niður þar sem frá var horfið í umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Þá vísa frumvarpshöfundar einnig til þeirrar stöðu sem upp kom hér á landi þegar útlendingar, sem yfirgefa áttu landið, neituðu að afhenda slík vottorð.“ — mótefna- og bólusetningarvottorð — „Sé þeirri tillögu sem lögð er til í 4. gr. frumvarpsins ætlað að tryggja fullnægjandi lagaheimild fyrir öflun lögreglu á slíkum vottorðum frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis þeirra einstaklinga sem í hlut eiga eða dómsmeðferðar.“

Það sem hér átt við er að tilgangur ákvæðisins er beinlínis að gera stjórnvöldum heimilt að afla þessara gagna án dómsúrskurðar. Eins og staðan er í dag þá gætu þau gert það með dómsúrskurði. Það er ekki þannig í dag að það sé ekki nokkur leið fyrir stjórnvöld að afla gagna sem nauðsynleg eru til að þau sinni hlutverki sínu heldur þurfa þau jafnan fara í gegnum dóm og það þarf úrskurð dómara sem metur hvort lagaskilyrði séu uppfyllt, hvort nauðsyn sé, hvort gengið sé of langt á friðhelgi t.d. viðkomandi einstaklings í ljósi þess markmiðs sem stefnt er að. Það er því ekki þannig að samkvæmt núgildandi lögum sé þetta ómögulegt. Það er mögulegt en með dómsúrskurði. Hver er tilgangurinn með því? Hver er ástæðan fyrir því? Það er vegna þess að talið er eðlilegt að það sé á hendi hlutlauss dómara að skera úr um það hvort sanngjarnt og eðlilegt sé að gengið sé yfir tiltekin mörk í vernd friðhelgi einkalífs einstaklinga í þágu þvingunarheimilda stjórnvalda. Það er því alveg ljóst að tilgangur þess ákvæðis sem verið er að leggja hérna til er að geta sneitt fram hjá þessum dómsúrskurði, sneitt fram hjá því að leita álits dómara á því hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt að afla þessara gagna í þessu tilviki í þessum tilgangi.

Ég ætla að fá að grípa aftur niður í umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn bendir á að hvers kyns öflun vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis viðkomandi felur í sér víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks og þurfa ákveðin skilyrði því að vera uppfyllt svo lagasetning sem þessi standist stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar. Frumskilyrði varðandi takmarkanir sem settar eru á friðhelgi einkalífs eru að þær séu í fyrsta lagi reistar á skýrri lagaheimild, stefni í öðru lagi að lögmætu markmiði og í þriðja lagi gangi ekki lengra en nauðsynlegt sé svo að markmið þeirra náist.“

Þá er tíminn búinn og ég mun halda áfram í minni næstu ræðu. Ég óska eftir því við forseta að vera sett aftur á mælendaskrá.