Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir andsvarið. Stórt er spurt um 8. gr. Rauði krossinn á Íslandi er með gríðarlega ítarlega umsögn um 8. gr. og í raun er það sú grein sem fær ítarlegustu umfjöllunina í umsögn Rauða krossins, sem er það félag á Íslandi sem hefur haft hvað mest að gera með málefni flóttamanna, bæði í náinni þjónustu með þjónustusamningum við fólk sem hingað hefur leitað eftir alþjóðlegri vernd og líka með sérfræðiþekkingu sinni á alþjóðavísu. Ég tek undir það með Rauða krossinum að ef koma á til skoðunar að lögfesta ákvæði um að synja umsækjendum um efnislega meðferð á grundvelli hugtaksins um fyrsta griðland þegar móttökuríkið er ekki eitt af Schengen-ríkjunum verði að gera auknar kröfur til mats á aðstæðum í mögulegu móttökuríki og vernd flóttamanna. Ég tek líka undir það mat Rauða krossins að ákvæði frumvarpsins er allt of óskýrt, allt of víðtækt og gerir bara allt of litlar kröfur um vernd eða móttöku í því ríki sem um ræðir, um mat á aðstæðum þar eða fyrir þann umsækjanda sem undir þetta ákvæði á að heyra.

Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að fylgja þessu ákvæði eftir? Hvernig ætla þau að tryggja að í þessu fyrsta griðlandi séu aðstæður sem eru boðlegar fyrir umsækjendur sem hingað leita? Hv. þingmaður spyr um hótun o.s.frv. Það er auðvitað stórt orð en það er líka tæki til þess að nýta sér til þess að ýta umsækjendum um vernd þangað sem íslenska ríkið þarf ekki að bera neina ábyrgð. Þar með er íslenska ríkið að firra sig ábyrgð, firra sig skyldum sínum og það er fullkomlega óboðlegt. Undir það getum við þingmenn ekki tekið sem tjáum okkur um þetta mál eða erum bara yfir höfuð kjörnir fulltrúar.