Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:02]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Það bárust 27 umsagnir um frumvarpið sem við erum að ræða hér í dag og erum búin að vera að ræða í nokkra daga. Af þessum 27 umsögnum voru u.þ.b. 24 umsagnir neikvæðar, í alvörunni. Á ekki að taka þessar áhyggjur og umsagnir til greina? Hvaða samráðsleysi er þetta hjá ríkisstjórninni þegar kemur að afgreiðslu þessa frumvarps? Hvaða samráðsleysi er þetta hjá hæstv. dómsmálaráðherra þegar kemur að þessu frumvarpi? Þetta samráðsleysi sem hér um ræðir veldur mér verulegum áhyggjum út af því að hvað erum við ef ekki fyrir fólkið sem kýs okkur hér í landinu? Ég held að það gleymist mjög oft að við erum hér til að vinna fyrir fólkið í landinu.

Meginefni athugasemda umsagnaraðila sneri m.a. að því, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu, að það er ekki vísað til ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og því ekki víst að þetta samræmist þeim. Það er grafalvarlegt, eins og ég kom inn á í minni fyrstu ræðu, þannig að ég ætla ekki að tíunda það.

Það veldur miklum áhyggjum ef breytingin í 6. gr. nær fram að ganga, sem varðar brottfall þjónustu fyrir flóttafólk. Undir þessa þjónustu fellur heilsa og öryggi og velferð fólksins sem um ræðir og hún verður tekin frá viðkomandi einstaklingum sem myndu þá væntanlega þurfa að leita skjóls á götunni ef þau hafa ekki yfirgefið landið sjálfviljug, bara hoppað upp í flugvél sjálf. En þetta hlýtur þá væntanlega að stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar um að veita sjúku fólki rétt til aðstoðar, að veita veiku fólki rétt til aðstoðar, og þetta stangast náttúrlega á við grundvallarstefnu íslensku þjóðarinnar sem byggir á því að virða mannréttindi hverra sem er og náttúrlega velferðarsamfélagið sem við þykjumst vera hér á Íslandi. Okkur ber náttúrlega skylda til að standa vörð um velferð allra sem hingað koma af því að eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á hér áðan þá gildir stjórnarskráin og ákvæði stjórnarskrárinnar líka um fólk á flótta.

Þessi þróun á þessum málaflokki veldur mér miklum áhyggjum af því að þetta frumvarp, og þessar íþyngjandi breytingar sem fela í sér skerðingu á mannréttindum fólks sem er í viðkvæmri stöðu, hefur verið lagt fram núna fimm sinnum og hefur aldrei náð fram að ganga en mér sýnist vera mikill vilji og mikil þrjóska í hæstv. dómsmálaráðherra að koma þessu frumvarpi í gegn. Hvar ætlar hæstv. dómsmálaráðherra að draga línuna? Ætlar hann bara að þröngva þessu í gegn án þess að athuga hvort þessi ákvæði stangast á við stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fara eftir og lögfest hér á landi? Er það ekki grafalvarlegt mál og er það ekki eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar?

Það er afar mikilvægt að hlúa áfram að þessum hópi til að hann komist ekki í þannig aðstæður að það skapi ný vandamál fyrir íslenskt samfélag og fyrir íslensku þjóðina út af því að eins og við höfum tekið fram, og eins og ríkisstjórnin hefur meira að segja talað um, þá erum við ekki nógu dugleg í því að taka vel á móti fólki sem hingað leitar. Þetta er eitthvað sem ég er búin að tala um mjög oft, svarið liggur í því að byggja upp innviði. Það er enginn sem tapar á því. Þetta hefur langtímaáhrif á íslenskt samfélag, á íslensku þjóðina, á íslenska ríkisborgara og bara fólkið sem hingað kemur t.d. í frí. Þetta mun leiða til mikillar þróunar og verðmætasköpunar en ég þarf kannski ekki að fara út í þá sálma akkúrat núna.

Hvað varðar 6. gr., það að fella niður þessa þjónustu, það náttúrlega leiðir til þess að fólk er þvingað í erfiða stöðu sem mun skapa álag á önnur kerfi hér á landi, eins og t.d. bara félagslegu kerfin, sveitarfélögin og alls konar hjálparsamtök af því að auðvitað mun fólkið neyðast til að leita þangað þegar það er búið að fella niður þessa grunnþjónustu sem því stendur til boða eins og staðan er núna.

Ég bara velti enn og aftur fyrir mér — afsakaðu mig, forseti, hvað ég er búin að hamra á þessum punkti oft en nú er ég bara í annarri ræðu og þetta er náttúrlega stórt og umfangsmikið frumvarp sem við erum að ræða hér í dag og er mjög umdeilt eins og hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra segir og ekki bara umdeilt heldur veldur fólki almennt áhyggjum, en ég skil ekki tilganginn í því að setja þessi lög. Ef þetta er ekki bara til þess að skerða meira og ganga meira á réttindi flóttafólks og fólks sem minna má sín og hingað leitar í neyð þá sé ég ekki tilganginn með því að setja þessi lög út af því að eins og ég hef sagt áður þá ríkir sátt um núverandi útlendingalög sem voru samþykkt árið 2016. Ég sé ekki nauðsynina og tilganginn á bak við það að vera að flýta sér með þessi lög sem eru greinilega ekki nógu vel unnin, sem eru greinilega ófullnægjandi þegar kemur að því að uppfylla skilyrði almennra laga eins og að samræmast stjórnarskrá. Því bara velti ég fyrir mér hvaða þrjóskukast, hvaða vegferð og hvaða stefna þetta er sem ríkisstjórnin, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, hefur gert að sinni með því að þröngva þessum lögum í gegn og með því að nota meirihlutavald til að koma lögum í gegn, þ.e. ef þetta fer í atkvæðagreiðslu.

Ég bind vonir við að það verði fjallað ítarlega um þau atriði sem hér hafa komið fram uppi í pontu þegar málið fer aftur í nefnd á milli 2. og 3. umr. af því að það er rosalega nauðsynlegt að sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig og það sé búið að leysa úr öllum áhyggjum þingmanna og umsagnaraðila og viðeigandi stofnana og samtaka sem hafa lýst yfir áhyggjum. Það er ekkert smávægilegt atriði að samþykkja heilan nýjan lagabálk og það er heldur ekkert lítið mál sem við erum að ræða hér í dag. Það er mögulega ástæða fyrir því að þrátt fyrir að þetta frumvarp hafi verið lagt fram fimm sinnum hafi það aldrei komist í gegn af því að staðreyndin er bara sú að það eru annmarkar á þessu frumvarpi, annmarkar sem núverandi og fyrrum dómsmálaráðherrar hafa bara ekki lagt metnað í að laga, hafa ekki tekið til greina. Þetta er eitthvað sem hefur komið fram í málflutningi þingmanna núna nokkra daga í röð og kemur fram í athugasemdum og almennri umræðu en þá spyr ég mig hvers vegna þetta er ekki tekið til greina. Svo velti ég líka fyrir mér: Hvar er meiri hlutinn? Hvar er meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar sem er að fara að taka þetta mál aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr.? Eru þau hér í þingsal? Ég sé þau ekki. Eru þau að hlusta á þessar ræður sem þingmenn eru að koma með og eru þau að punkta niður hjá sér hvað þarf að tala um og hvað þarf að taka til greina í umfjöllun nefndarinnar á milli 2. og 3. umr.? Er það alveg marktækt að allsherjar- og menntamálanefnd sé að fara að fjalla um málið á ný milli 2. og 3. umr.? Mig langar nefnilega bara að fá skýra afstöðu nefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd til þess hvort þessi atriði verði tekin til greina sem hér hafa komið fram í ræðum hv. þingmanna þvert á flokka stjórnarandstöðunnar og hvort meiri hlutinn sé að hlusta og hvort meiri hlutinn líti á þetta mál sem jafn alvarlegt mál og það er eða hvort þau horfi bara á þetta sem stjórnarandstöðuna að vera með einhverja stæla.