Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég vind mér beint að efninu sem fyrr. Ég er hér að fjalla um 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um auknar heimildir lögreglu til að afla gagna frá heilbrigðisyfirvöldum um umsækjendur sem til stendur að flytja úr landi með valdi. Ég var að fara yfir umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði þar sem hún er mjög góð og ítarleg og ég ætla að reyna að þýða hana á mannamál fyrir þau sem misstu athyglina við fyrstu tilvísun í einhver lagaákvæði, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði sem mæla fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem gagna er varða andlegt og líkamlegt heilbrigði, án samþykkis viðkomandi þurfa því að uppfylla framangreind skilyrði svo unnt sé að takmarka rétt manna sem tryggður er með 8. gr. mannréttindasáttmálans og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þær undantekningar sem koma fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans eru skýrt afmarkaðar og ber að túlka þröngt með hliðsjón af almennri lögskýringarreglu stjórnskipunarréttar enda er þar kveðið á um takmarkanir á grundvallarmannréttindum sem borgurum eru tryggð.“

Á mannamáli: Í stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum eru ákvæði um friðhelgi einkalífs fólks og m.a. við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, sem heilsufarsupplýsingar sannarlega eru, sérstaklega viðkvæmar, þarf lagaheimild. Sú vinnsla þarf að vera nauðsynleg, þarf að stefna að ákveðnu markmiði og vera nauðsynleg til að ná ákveðnum markmiðum. Markmiðin sem nefnd eru eru sem fyrr segir vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Fellur það markmið að koma fólki úr landi með valdi undir eitthvert af þessum markmiðum? Rauði krossinn er ekki á þeirri skoðun, með leyfi forseta:

„Þegar greinargerð við frumvarpið er skoðuð telur Rauði krossinn ljóst að markmiðið með því að veita lögreglu heimild til að afla heilbrigðisvottorða um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings án samþykkis hans fellur ekki undir þau markmið sem stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu telja lögmæt og talin voru upp hér að framan. Markmiðið virðist vera að unnt sé að vísa einstaklingum úr landi á sem skilvirkastan hátt eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar eða úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir. Fær Rauði krossinn ekki séð að það markmið eitt og sér geti talist lögmætt enda ekki nauðsynlegt vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þá telur Rauði krossinn þær aðstæður sem upp komu á meðan heimsfaraldurinn geisaði ekki geta réttlætt heimild lögreglu til að afla hvers kyns upplýsinga um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings til þess eins að geta flutt hann úr landi.“

Ég ætla að staldra þarna við þar sem mér þykir þetta mjög áhugavert. Svo virðist sem mörgum þyki það engu að síður eðlilegt að gengið sé á réttindi sem þessi þegar um er að ræða útlending sem á að flytja úr landi og vísa gjarnan til þess að viðkomandi sé búinn að fá lokaniðurstöðu og jú, honum beri að fara úr landi. En í því ljósi verðum við að átta okkur á því að hvað sem okkur finnst um það sem er þar í gangi, þá ákvörðun sem tekin hefur verið, þá skyldu viðkomandi að hlýða boðum og bönnum, þá eru takmörk fyrir heimildum stjórnvalda til að grípa inn í mannréttindi okkar. Það er ástæðan fyrir því að við höfum sett þessi mannréttindaákvæði, bæði í alþjóðlegum samningum og í stjórnarskránni okkar sem öll lög sem samþykkt eru hér á þingi þurfa að samræmast. Við erum búin að setja þessar grundvallarreglur til þess að tryggja að ekki sé gengið of langt, jafnvel þegar það virðist við fyrstu sýn í lagi. Við erum búin að ákveða tiltekin mörk og það er vegna reynslunnar, það er vegna sögunnar, það er ekki að ástæðulausu. Því miður virðist stundum vera ástæða til þess að árétta það að mannréttindi eiga við um allt fólk, þau gilda um allt fólk, hverja einustu manneskju á þessari jörðu. Ég hef verið spurð að því hvort íslenska stjórnarskráin gildi um útlendinga. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands gildir um allt og alla í íslenskri lögsögu, svo það sé á hreinu.

Ég mun halda áfram í næstu ræðu. Ég óska eftir því, forseti, að ég verði sett aftur á mælendaskrá.