Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að fjalla um fjórða atriðið síðast, að flóttafólk í Grikklandi búi við sömu aðstæður og aðrir Grikkir sem augljóslega er ekki rétt. Það næsta sem dómsmálaráðherra fór í í þessu viðtali, þessu eina viðtali þar sem 11 stykki — það er merkt tvisvar sinnum 11 hérna, þetta er líklega 12, áhugavert. Eitthvað vitlaust í númeramerkingum í skjalinu. Alla vega, það voru 12 rangfærslur í því sem ráðherra sagði í einu stuttu viðtali. Nr. 5 var t.d.: Það er lagaumhverfið sem mælir gegn því að þessi hópur fái að vera. Nei. Aftur: Endurtekning, bara með öðru orðalagi, á því sem var rangt þegar hann sagði þetta fyrst, að það þurfi að breyta lögum til að hætta að senda fólk til Grikklands sem hefur fengið þar vernd. Rangt. Að reglurnar séu skýrar um að fólk sem hefur fengið vernd í öðrum löndum skuli fara aftur þangað. Rangt. Lögin koma ekki í veg fyrir að fólk fái að vera. Ráðherra endurtekur bara sömu vitleysuna aftur og aftur — að segja þetta nógu oft þá bara einhvern veginn eigi það að verða satt.

Ég er að hlusta á bók núna sem heitir Human kind, mjög áhugaverð bók, ég mæli með henni. Þar er farið dálítið yfir það hvernig goðsagnir um mannveruna verða til, hvernig eitthvert sjónarhorn á t.d. fólk sem bjó á Páskaeyju fyrir nokkur hundruð árum síðan — sagan um það varð til hjá einum Norðmanni sem fór þangað og hafði ákveðnar skoðanir þrátt fyrir að það væri enginn grundvöllur fyrir því sem hann síðan sagði. En allur heimurinn trúði því sem hann sagði því það spurði síðan enginn þau sem bjuggu þarna og þau vissu það svo sem ekkert heldur hvað fortíðina varðaði. Þau voru ekki með ritaða sögu o.s.frv. Þannig að það sem þessi Norðmaður sagði varð bara að þeirra sögu í kjölfarið og búið að vera mjög erfitt að vinda ofan af því. Það er sama hérna, það er mjög erfitt að vinda sífellt ofan af þessum rangfærslum ráðherra sem segir þær bara aftur og aftur án þess að blikna. Ég veit ekki af hverju hann fær að komast upp með það. Eru það hinir í ríkisstjórninni? Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur bara alveg dús við það að ráðherrar í hennar ríkisstjórn bara segi svona hluti án þess að það sé gert neitt við því? Erum við ekki með siðareglur ráðherra sem kveða á um ákveðinn heiðarleika? Ekkert gert við því, ekki neitt, merkilegt nokk. Það þarf ekki að breyta neinum reglum til þess að hópurinn sem um ræðir fái að vera.

Ráðherra segir að flestir fari úr landi af sjálfsdáðum þegar þeir hafa fengið höfnun. Þetta er líka rangt. Fæstir fara af sjálfsdáðum eftir synjun en þegar fólki er ekki gefinn annar kostur streitist það ekki endilega á móti. Þetta er svona ákveðinn agnúi þarna á. Maður þarf að skilja samhengið þarna. Það er í rauninni enginn möguleiki gefinn. Þá er það að vissu leyti þvingaður valmöguleiki þannig að það er ekki eins og það sé að fara af sjálfsdáðum. Þetta er kannski sísta rangfærslan. Þetta er dálítil mistúlkun eða röng framsetning í rauninni á því sem þarna er að gerast. Það fer samt síðan á vegum lögreglunnar og gjarnan í lögreglufylgd þannig að það er mjög ónákvæmt að kalla þetta að fara af sjálfsdáðum. Tölurnar um þetta eru ekkert rosalega aðgengilegar og það væri alveg mjög áhugavert að spyrjast fyrir um þær. Ég veit ekkert endilega hvort þær eru til. Það væri alla vega mjög áhugavert að spyrjast fyrir um þetta til að líka vita t.d. — ef frumvarpið á að ná einhvers konar skilvirkni í árangri þá væntanlega er þetta eitt af þeim atriðum sem ætti að nást betri skilvirkni um á einhvern hátt, færri sem lögreglan þyrfti að fylgja á brott.

Við höldum áfram með þetta í næstu ræðu. Ég bið forseta um að setja mig vinsamlegast aftur á mælendaskrá.