Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég fjalla hér um rangfærslur ráðherra í Morgunútvarpinu frá því í maí í fyrra. Við erum komin á níundu rangfærsluna í þessu stutta viðtali þar sem ráðherra segir um þetta fólk sem kemur inn í verndarkerfið að ef það væri að koma hingað til að dvelja og vinna þá væri það að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi. Nei, fólk má það ekki, það bara getur það ekki. Við erum með aðgang að fólki sem er innan EES-svæðisins sem getur komið hingað og byrjað að vinna, ekkert mál, en aðilar fyrir utan það eiga rosalega erfitt með að gera það. Þau geta það tvímælalaust ekki þegar þau eru komin hingað og ætla að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi. Það er ferli sem byrjar á allt annan hátt. Það gengur ekki upp. Umsókn um vernd er í rauninni lítið annað en umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi á þeim forsendum að fólk falli undir verndarkerfið. Þegar fólki er veitt staða flóttamanns fær það fjögurra ára dvalarleyfi og óbundið atvinnuleyfi, þ.e. það getur unnið við hvað sem er. Þetta fólk á ekki möguleika á velja neitt annað og kannski útskýrir það einhvern hluta þeirra umsókna sem fara til þessa kerfis frá fólki sem síðan er hafnað, eiga ekki rétt á vernd. Vissulega myndu þau kannski sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á annan hátt ef það væri mögulegt. En það er það ekki. Þá tala einhverjir um misnotkun á kerfinu, þegar fólk er í rauninni bara reyna að vera eins heiðarlegt og það getur. Það vill vera hérna til að búa og starfa eins og 500 milljónir manna á Evrópusvæðinu geta gert, sem er dálítið merkilegt; fólk sem fær stöðu flóttamanns t.d. í Grikklandi, þó að það fái atvinnuleyfi þar þá þýðir það ekki að það geti farið neitt annað og fengið að vinna því að þau eru ekki með dvalarleyfi þar. Þau eru bara með leyfi til að koma sem ferðamenn. Þetta er því undarleg staða. Fólk sem kemur til Grikklands og fær þar stöðu flóttamanns, fær vernd, má reyna að fá sér vinnu þar. Þetta fólk er oft í verri stöðu en þegar þau voru umsækjendur, þau fá ákveðna þjónustu sem umsækjendur en þegar þau eru búin að fá vernd er þeim nánast hent út á götuna og bara: Þú verður að redda þér sjálfur. Ef þetta fólk væri Grikkir, sem er verið að segja að hafi búið við sömu aðstæður og aðrir Grikkir í fyrri rangfærslu sem ég fór yfir, þá hefðu það getað komið hingað og sótt um atvinnu eins og allir aðrir Grikkir geta gert, bara á morgun. Þau gætu bara lent á Keflavíkurflugvelli, rölt inn, opnað atvinnuumsóknir og bankaði upp á hjá atvinnurekendum og sagt: Hey, ég er til í að vinna. Það þarf ekkert að gera mikið meira, það er ekki mikið flóknara en svo. Það er vissulega þessi klassíska pappírsvinna og svoleiðis, en ekki í líkingu við það sem aðrir utan EES-svæðisins þurfa að glíma við.

Tíunda rangfærslan: Við erum í alþjóðasamstarfi, við vinnum eftir þeim reglum sem önnur lönd einhvern veginn setja okkur. Nei, það er í rauninni ekki alþjóðasamstarf þannig séð, ekki Evrópusamstarf eða neitt annað sem kveður á um að fólk skuli sent þangað sem það hefur fengið t.d. vernd. Það eru landslög sem gilda um þetta, vissulega á ákveðnum forsendum alþjóðasamninga sem hafa verið gerðir en það eru samt landslög. Það er ekki einhver stofnun hjá Sameinuðu þjóðunum sem potar í íslensk stjórnvöld og segir: Lögin verða að vera svona og hinsegin — þó að það sé vissulega gerð athugasemd við það þegar þau fara gegn sáttmálanum á einhvern hátt. Förum aðeins betur yfir þetta seinna, það er aðeins flóknara.

Forseti. Ef þú vildir vera svo væn að bæta mér aftur á mælendaskrá þá væri það vel þegið.(Forseti (DME): Sjálfsagt.)