Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að tala aðeins um alþjóðastarfið og hvernig dómsmálaráðherra var að segja að við vinnum eftir þeim reglum sem löndin setja okkur — sem er rangt. Við erum hérna með landslög og þess vegna erum við t.d. að fjalla um frumvarp um breytingar á útlendingalögum í dag sem eiga að breyta lögunum í áttina að því sem hin Norðurlöndin eru með, sem eru samt með mismunandi lög og reglur og verklag í kringum það hvernig þau meðhöndla umsóknir um alþjóðlega vernd. Það eru því ekki aðrir sem eru að segja okkur hvernig reglurnar okkar eiga að vera, annars væru þær eins alls staðar og það eru þær ekki. Það eru þingin í hverju landi fyrir sig sem útfæra reglur og lög miðað við ákveðna alþjóðasáttmála sem löndin hafa undirgengist að útfæra. Það eru ákveðin viðmið og grundvallaratriði sem þarf að passa upp á. Hvernig nákvæmlega er passað upp á það er síðan útfærsluatriði í hverju landi fyrir sig. Þess vegna er þetta mismunandi eftir löndum, það er mismunandi í hversu langan tíma fólk fær dvalarleyfi eða hvernig atvinnuleyfi það fær og ýmislegt svoleiðis sem löndin gera til að geta sagt: Við erum búin að uppfylla þetta skilyrði. Það er ekki þannig að einhver eins og Sameinuðu þjóðirnar segi við okkur: Svona á þetta að vera.

Ellefta atriðið sem ráðherra fór rangt með í þessu stutta útvarpsviðtali var að frumvarp ráðherra muni verða til þess að málsmeðferðartími fólks styttist. Það er ekki rétt heldur því að flestar breytingarnar sem verið er að leggja til vinna gegn skilvirkni og fjölga málum þar sem fólk verður þá hérna í lengri tíma án þess að fá úrlausn sinna mála. 12 mánaða reglan t.d. sem hefur verið fjallað um er um skyldu stjórnvalda til að klára ákveðin mál innan þess tíma. Það er verið að gefa stjórnvöldum hvata til þess að vera fljót að klára þetta því að annars þurfi að fara í efnismeðferð. Það er svo spurning hvort það væri fljótlegra að byrja bara á efnismeðferð strax og bíða ekki með það; bara allt í lagi, förum með þetta í efnismeðferð, drífum okkur í því. Þetta var kannski ein mesta réttarbótin og ákveðin svipa á framkvæmdarvaldið að leyfa afgreiðslu mála ekki að dragast út í hið óendanlega þar sem fólk var þá kannski búið að vera hérna í mörg ár án þess að vita nokkuð um afdrif sín, jafnvel með börn sem voru búin að festa rætur hérna og þá var bara ekkert hægt að gera í þessu. Þarna var bara sett tímamark: Fyrirgefið, stjórnvöld, þið verðið að standa ykkur betur. Við vitum það miðað við hvernig ástandið var áður að það að fara til baka frá þessu myndi gera hlutina mun verri. Núgildandi lög bjóða meira að segja upp á að þessi mál séu afgreidd mjög hratt en málsmeðferðin lengist við það þegar rembst er við að reyna að senda fólk til baka. Málið er tafið með því einmitt að rembast við að ýta fólki úr landi, það er verið að finna ástæður til þess. Núna er verið að bæta við ákvæði um það ef fólk er ekki samvinnuþýtt, ef það til mynda framvísar fölsuðum skilríkjum sem það þarf kannski að gera þegar það er að flýja ofsóknir og er ekki með neitt annað því að stjórnvöld í landinu eru búin að taka skilríkin af þeim. Og þegar stjórnvöld hérna segja: Hvernig komstu til landsins? Hvaða skilríki varstu með? Þessi? Nei, fyrirgefðu, þetta eru fölsuð skilríki, þú ert ósamvinnuþýður, bless, þú missir þjónustu.

Það eru svona atriði sem maður þarf að skilja í ákveðnu samhengi til að átta sig á því hvað er verið að reyna að gera hérna. Það er í alvörunni verið að rembast við að senda fólk úr landi en ekki verið að tryggja það sem er sagt að sé yfirlýst markmið frumvarpsins; að auka mannúð, að ná skjótri niðurstöðu út frá mannúðarsjónarmiðum. Það er verið að reyna að finna afsakanir fyrir því að þurfa ekki að segja já eða þurfa ekki að fara í efnismeðferð. Það er ekki samkvæmt því sem er sagt og þar af leiðandi er þetta enn ein rangfærslan í þessari umræðu.

Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.