Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, reyndar á vakt síðasta forseta þannig að ég kannski rifja aðeins upp það sem sagt hefur verið varðandi umsögn sem Samtökin '78 sendu inn eftir að frumvarpið var afgreitt frá allsherjar- og menntamálanefnd. Umsögnin er dagsett 25. janúar þessa árs og það er eitt efnisatriði sem samtökin benda sérstaklega á sem er 15. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að þrengja heimild kvótaflóttafólks til fjölskyldusameiningar. Þetta er svo sláandi dæmi vegna þess að fjöldi einstaklinga sem þetta er líklegt til að hafa bein áhrif á er varla teljandi á fingrum annarrar handar. Þetta eru tveir, þrír einstaklingar kannski sem þetta myndi snerta. Þetta eru svo mikil jaðartilvik. En áhrifin eru svo mikil fyrir hvernig og einn. Það er verið að leggja stein í götu þess að fólk geti sameinast maka sínum. Samsetningin á kvótaflóttafólki sem Ísland hefur boðið til landsins er þannig að um er að ræða annars vegar karlmann sem hefur verið heimtur úr helju, maður sem kona hefur haldið að hafi verið myrtur af einhverjum pólitískum andstæðingum í heimalandinu. Konan kemur til Íslands sem ekkja en þegar maðurinn allt í einu dúkkar upp lifandi þá ætlar íslenska ríkið að biðja hann bara að vera úti. Það er það sem þessi breyting snýst um. Hins vegar er það svo hinsegin einstaklingur sem er að flýja ofsóknir í heimalandinu, kemur til Íslands sem kvótaflóttamaður og svo þegar er búið að byggja upp það traust sem þarf til að geta deilt upplýsingum með stjórnvöldum, einstaklingur í þessari stöðu treystir stjórnvöldum væntanlega ekki mjög mikið í grunninn, en þegar það traust er komið og viðkomandi getur kannski hóstað því upp úr sér að í heimalandinu eigi hann reyndar maka sem sé í jafn mikilli hættu og hann var áður en hann fékk skjól á Íslandi þá er bara sagt nei við því., að viðkomandi hafi þá verið gerður að kvótaflóttamanni á fölskum forsendum vegna þess að hann hafi ekki sagt satt og rétt frá því í flóttamannabúðunum í inntökuviðtalinu að hann ætti maka. Þetta benda Samtökin '78 á að sé skref aftur á bak í réttindum hinsegin fólks í hinni meintu hinseginparadís Íslandi.

Þó að þessi umsögn hafi borist fyrir ekki löngu síðan þá er þetta atriði sem var bent á á fyrri stigum málsins. Það var bent á þetta hér í haust þegar málið var í 1. umr. Þó Samtökin '78 hafi náð að senda neyðarkall núna í janúar þá eru þau að segja það sama og sagt var við meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í haust, sem meiri hlutinn ákvað að hunsa. Þetta er enn eitt atriðið þar sem fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í allsherjar- og menntamálanefnd verða ekki við því sem maður hefði haldið fljótt á litið að væri ósköp auðsótt og sjálfsagt. En þetta var bara upprifjun fyrir virðulegan forseta, sem ekki var viðstödd hér á fyrri stigum.

Mig langaði að nota þetta sem frekara tækifæri til að minna á að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála halda sama og ekki neitt utan um tölfræði varðandi hinsegin umsækjendur um alþjóðlega vernd, sumpart væntanlega vegna þess að yfirvöld rengja bara fram í rauðan dauðann hvern þann sem sækir um alþjóðlega vernd á grundvelli þess að vera hinsegin, biðja um alls konar ósmekklegar sannanir á hinseginleika viðkomandi. Líka bara vegna þess að það virðist vera alveg ofboðslega grunnur skilningur á þeirri mismunun sem getur mætt fólki í lífinu (Forseti hringir.) hjá útlendingayfirvöldum sem birtist í því að það er ekki haldin tölfræði um ýmsa hluti, (Forseti hringir.) eins og t.d. fötlun fólks eða hinseginleika. Kerfinu er bara sama.