Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það eru tvö atriði. Í fyrsta lagi tek ég undir að beiðni hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur — það þarf að draga andann eftir vera búinn að segja þetta yndislega langa nafn — um að vísa málinu til nefndar því að eins og hefur oft komið fram erum við að glíma við mál sem er með gríðarlega margar mjög neikvæðar umsagnir er varða atriði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur skrifað undir án þess að þeim ábendingum hafi verið svarað.

Hins vegar langar mig að spyrja forseta. Nú er klukkan rétt rúmlega tíu, létt og lipur, venjulega eru þingfundir til miðnættis. Það er nefnilega ein aðferðafræði sem forseti hefur oft notað sem er bara að segja: Ég ætla að hafa þingfund til, ja, eitthvað, ég veit ekki, fram á morgun eða til miðnættis. Þingmenn vita oft ekki hvenær í rauninni þingfundur klárast, (Forseti hringir.) sem er mjög skrýtið. Venjulega vitum við það en þegar tekin er ákvörðun um að lengja þingfund (Forseti hringir.) þá bara ákveður forseti að geyma þær upplýsingar í hausnum á sér. Ef forseti gæti vinsamlegast sagt okkur svona u.þ.b. hvenær þingfundur (Forseti hringir.) á að klárast þá væri það vel þegið.