Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér áður en ég tók mér smá hlé hafði ég verið að ræða umsögn Kvenréttindafélags Íslands um þetta mál. Ég valdi að lesa úr þessari umsögn vegna þess að a.m.k. á alþjóðavettvangi hefur hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir talað mikið um að Ísland sé land jafnréttis og að Ísland sé í forystu þegar kemur að því að bæta stöðu kvenna. En því miður er í þessari umsögn Kvenréttindafélags Íslands bent á að margt af því sem hæstv. forsætisráðherra státar sig af á ráðstefnum erlendis virðist alveg hafa gleymst þegar kemur að málefnum kvenna á flótta.

Hér áðan, eða fyrr í kvöld var það víst, var ég að fjalla um þann kafla í umsögninni sem talar um sérstaka stöðu kvenna og þar á meðal það að konur eiga sérstaklega á hættu að verða fyrir því sem talið er upp í 6. tölulið 3. gr. útlendingalaga, svo sem að verða fórnarlömb mansals, verða fyrir kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Við ræddum það hvernig lítið er tekið mark á þessu í vinnu Útlendingastofnunar.

Mig langar að lesa hér smákafla úr umsögninni, með leyfi forseta:

„UN Women á Íslandi bendir á að ein af hverjum fimm konum á flótta hefur þurft að þola kynferðislegt ofbeldi; að 60% kvenna í heiminum sem deyja á meðgöngu eða af barnsburði deyi á átakasvæðum; að konur og börn séu fjórtán sinnum líklegri til að deyja við slíka neyð; að stelpur séu rúmlega helmingi líklegri til að detta úr námi; og að konum sé yfirleitt haldið utan við ákvarðanatökur í neyð og á átakasvæðum og að þarfir almennings séu þar af leiðandi greindar fyrst og fremst út frá þörfum karla. Því er mikilvægt að tillit sé tekið til sérstakrar stöðu kvenna þegar farið er yfir umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd.“

Þó að Kvenréttindafélag Íslands fagni því að sérstakt tillit sé tekið til barnshafandi kvenna í þessu frumvarpi með því að veita þeim áframhaldandi aðgang að mæðravernd og fæðingarhjálp, þá harmar félagið að ekkert sé tekið fram um önnur réttindi þeirra og séu þær þá í jafn mikilli hættu og aðrir að lenda á götunni, þó þær séu barnshafandi. Eins harmar Kvenréttindafélag Íslands að sjá í 5. grein frumvarpsins að tekið sé sérstaklega fram að í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus falla réttindi hans niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Þetta ákvæði tekur ekki tillit til þeirra stöðu sem konur eru í eða þeim aðstæðum sem þær gætu lent í þegar komið er í upprunaríki eða heimaland.

Kvenréttindafélags Íslands krefst þess að dómsmálaráðuneytið og stjórnvöld dragi þetta frumvarp til baka og vinni það upp á nýtt í samstarfi við fagaðila með jafnréttissjónarmið og mannúðarstefnu íhuga. Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld eindregið að láta ekki sitt eftir liggja í jafnréttismálum og að sýna viljann í verki með því að fara eftir eigin reglum, stjórnarsáttmála, stjórnarskrá og samþykktum verkferlum sem tryggja eiga jafnrétti fyrir alla, óháð þjóðfélagsstöðu.“

Frú forseti. Ég mun halda áfram að tala um mannréttindi hér í kvöld og óska eftir að vera settur á mælendaskrá.