Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég var hér áðan að fjalla um ákveðna grein í frumvarpinu, 2. gr. frumvarpsins og umsögn Rauða krossins um hana. Rauði krossinn er með mjög ítarlega umsögn um þessa grein og mjög mikilvægt að koma ábendingum Rauða krossins á framfæri enda sérhæfð stofnun sem hefur farið með þennan málaflokk undanfarin ár þangað til núverandi dómsmálaráðherra ákvað að endurnýja ekki samstarfssamning við Rauða krossinn og færa málaflokkinn í raun aftur í fyrra horf eins og hann var svolítið áður en Rauða krossinum var falið þetta mikilvæga hlutverk að sinna talsmannaþjónustu við flóttafólk, ég held að það hafi verið í kringum 2014 og komin ágætisreynsla á það, en það er svo sem ákveðinn útúrdúr.

Það sem ég var að fjalla um áðan var 2. gr. frumvarpsins og gagnrýni sem Rauði krossinn kemur með gagnvart því að stytta kærufrest umsækjenda um alþjóðlega vernd með því að búa til sjálfkrafa kærufrest eftir 14 daga. Eins og ég sagði áðan er ríkt tilefni til þess að taka mikið mark á Rauða krossinum vegna einmitt hlutverks starfsfólks hans sem talsmanna í fleiri ár, vegna þess sem hér á eftir kemur. En það er einmitt þetta, ástæðan fyrir því að Rauði krossinn telur mikilvægt, eins og kemur fram á bls. 2 í umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Að mati Rauða krossins er frestur til umhugsunar um kæru nauðsynlegur og sjálfsagður til að gefa umsækjendum tækifæri til að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunarinnar og taka upplýsta ákvörðun um kæru.“

Og hér kemur ástæðan sem mér finnst mjög sláandi, virðulegi forseti. Ástæðan „snýr að þeim aðstæðum sem skapast hafa og leiða af vanrækslu Útlendingastofnunar á rannsóknarskyldu sinni skv. 1. mgr. 25. gr. útl. við ákvarðanatöku í málum …“

Sem sagt: Útlendingastofnun vanrækir rannsóknarskyldu sína í málum. Þetta staðhæfir hinn hófsami Rauði kross sem tekur almennt ekki mjög þungt til orða, skulum við segja, vegna þess að þetta er þeirra reynsla eftir margra ára talsmannaþjónustu við flóttafólk á Íslandi. Ég held áfram, með leyfi forseta, að lesa úr umsögninni:

„Rauði krossinn hefur ítrekað gert athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á stöðu umsækjenda og hugsanlegum sérþörfum“ — þetta hefur Þroskahjálp líka bent á, bendir á í sinni umsögn sem ég get farið nánar yfir hér síðar. — „líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 25. gr. útl. Reynslan sýnir, að mati Rauða krossins,“ — og nú erum við komin á bls. 3, virðulegi forseti, — „að stofnunin“ — og hér er verið að vísa í Útlendingastofnun — „vanrækir skyldu sína til að hafa frumkvæði að slíkri rannsókn, jafnvel þegar vísbendingar eru uppi um að einstaklingar teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“

Það er sem sagt þannig að samkvæmt lögunum eins og þau eru núna ber Útlendingastofnun sjálfstæð skylda til að kanna hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem er í málsmeðferð hjá stofnuninni, sé í svokallaðri sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það er t.d. að viðkomandi sé með alvarlegan geðsjúkdóm eða sé haldinn einhvers konar fötlun, það er líka talað um að börn séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þungaðar konur, mansalsfórnarlömb, fólk sem hefur orðið fyrir kynfæralimlestingum. Þetta er allt fólk sem myndi falla undir skilgreininguna á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og þau eiga að njóta ríkari réttarverndar og eiga auðveldari leið í að fá vernd á Íslandi heldur en ella.

Upp á Útlendingastofnun stendur þessi skylda að kanna þetta og hér er Rauði krossinn að segja í sinni umsögn að þau hafi ítrekað gagnrýnt Útlendingastofnun fyrir að sinna ekki þessari rannsóknarskyldu. Raunar er það mjög algengt vandamál hjá Útlendingastofnun að þau kanni alls ekki aðstæður fólks í málsmeðferðinni. Það er auðvitað gríðarlega alvarlegt þegar stofnun sem hefur sinnt réttindagæslu fyrir þennan hóp þetta lengi staðhæfir einfaldlega að Útlendingastofnun vanræki skyldur sínu gagnvart flóttafólki. En ég næ ekki að koma nógu vel inn á það í þessari ræðu og óska því eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.