153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:35]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp í kjölfar fréttaflutnings af því að hæstv. dómsmálaráðherra hafi skrifað bréf, bréf þar sem hann fyrirskipar sölu á einni af flugvélum Landhelgisgæslunnar. Um þetta mál hefur ekki farið fram nein umræða hér í þessum sal. Um þetta mál hefur ekki farið fram nein umræða í utanríkismálanefnd. Hér er um þjóðaröryggismál að ræða á þeim sögulegu tímum sem við núna lifum. Vélin þjónar hlutverki, er fyrsta viðbragð í náttúruvá, hér er um leitar- og björgunarvél að ræða og það er með nokkrum ólíkindum að við séum á þeim stað að mál af þessum toga verðskuldi ekki einu sinni umræðu hér í þessum sal bara vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra skrifar bréf. Það hefur komið fram og það er notað sem röksemd fyrir sölunni að vélin hafi verið svo mikið leigð út og sé ekki í notkun hér á landi. Ástæða leigunnar er sú að Landhelgisgæslan er í þeirri stöðu að þurfa að afla sér tekna, (Forseti hringir.)svo fjársvelt að hún þarf að afla sér tekna með leigunni, fjársveltið er síðan notað sem röksemd fyrir sölunni.