153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Þetta er vandamálið varðandi það hvernig farið er með mál fyrir þingið. Við erum nýbúin að samþykkja fjárlög fyrir þetta ár, ekkert um slíkar fyrirætlanir í þeim fjárlögum. Við fáum einhverjar almennar aðhaldskröfur hingað og þangað í fjárlögum, gríðarlega illa undirbúið skjal sem við vitum í raun ekkert hvað þýðir þegar við ýtum á takkann: já, nei eða sitja hjá. Nú kemur upp úr dúrnum, bara strax í fyrsta mánuði, að það þýði m.a. sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar. Vissi það einhver þingmaður hér inni, þegar verið var að greiða atkvæði um þessi fjárlög, að það myndi hafa þær afleiðingar? Þetta er það sem við erum að reyna að lýsa, forseti, þegar við segjum að mál sem við fáum hingað á gólfið séu gríðarlega illa undirbúin. Við vitum ekkert hvað við erum að samþykkja þegar við ýtum á takkann af því að það er ekki sagt. Neikvæðar umsagnir, ekkert hlustað á þær. (Forseti hringir.) Umsagnir um fjárlögin sem segja hvað er í gangi, ekki svarað. Það er vandinn sem (Forseti hringir.) við erum að glíma við í þessu þingi og þess vegna erum við að reyna að benda á það. En nei, ekkert gerist.