153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Ég vil benda hæstv. forseta á að óundirbúnar fyrirspurnir eru mun takmarkaðri auðlind en fundarstjórn forseta og við hljótum að geta rætt hér þau mál sem þurfa að vera á dagskrá. Það er ömurlegt til þess að vita að á áttunda mánuði styrjaldar í Evrópu hafi verið mælt fyrir fjárlögum sem eru með þeim hætti að við neyðumst nú til að selja mjög mikilvægan búnað sem er auðvitað til að tryggja almennt öryggi í landinu en varðar líka þjóðaröryggismál. Það er alltaf að koma betur í ljós að þessi ríkisstjórn getur ekki horft fram í tímann. Lengi vel hefur maður gagnrýnt hana fyrir að sýna einungis viðbrögð. Núna getur hún ekki einu sinni sýnt nein viðbrögð og það á alveg jafnt við um efnahagsmál og mál af þessum toga, sem varðar þjóðaröryggi og öryggi landsins.