153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér er um grundvallarmál að ræða og grundvallarákvörðun. Vélin sem um ræðir er sérhæfð, hún þjónar hlutverki í tilvikum leitar, björgunar og eftirlits. Svo að ég endurtaki það á hvaða tímum við lifum núna þá er ótrúlegt til þess að hugsa að hæstv. dómsmálaráðherra hafi tekið þessa ákvörðun í fullkomnu tómarúmi, sent bréf með skipun. Ég sakna þess að heyra ekki sjónarmið og álit stjórnarliða sjálfra þar um.

Mig langar líka að setja þetta í samhengi við fjármögnun þess málaflokks sem hæstv. dómsmálaráðherra fer fyrir. Ég lagði fram skriflega fyrirspurn hér fyrir jól þar sem fram kom að það voru biðlistar inn í fangelsi landsins; úrræði sem enginn vill þiggja, samt biðlistar. Menn voru ekki boðaðir til afplánunar. Við þekkjum umræðuna um hver staðan er í löggæslu landsins og nú er ráðist á Landhelgisgæsluna. Eru engin takmörk?