153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta eru vondar fréttir. Ég vil geta þess að ég hef óskað eftir því að Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið komi fyrir utanríkismálanefnd á mánudaginn því að við erum með til umfjöllunar þjóðaröryggisstefnu. Á þetta hefur aldrei verið minnst. Það hefur aldrei verið farið í einhverja áhættugreiningu á því hvaða áhrif þessi ákvörðun ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur á öryggi og varnir í landinu, líka almannavarnir. Það hefur hvergi verið farið yfir þetta. Þetta er bara ákvörðun sem er tekin. Þetta er líka lýsandi um það hvernig forgangsröðun fjármuna er. Við erum að upplifa mestu útgjaldaþenslu í ríkissjóði í manna minnum. Við erum að fara úr áætluðum fjárlögum úr 90 milljörðum í 120 milljarða. Það er ekki hægt að verja velferðarkerfið. Það er ekki hægt að verja innviðina og það er ekki hægt að verja frumskyldu hverrar ríkisstjórnar að verja öryggi landsmanna. Það er hvergi einu sinni umræða, ekki einu sinni smá samtal. Það hafa reyndar ekki verið fundir í utanríkismálanefnd í allan janúar, en það er önnur saga. Við hljótum að þurfa að fara yfir þetta og enn á ný að forgangsraða fjármálum ríkisins með öðrum hætti en þessi ríkisstjórn hefur gert.