153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það eru eiginlega tvær ástæður sem geta legið að baki þessari umræddu ákvörðun sem hefur valdið svo hörðum viðbrögðum, ekki bara meðal minni hlutans hér heldur úti í samfélaginu hjá fagfólkinu sem við reiðum okkur alla jafnan á þegar á bjátar; fagfólki sem við erum stolt af, fagfólki sem við höldum á lofti, fagfólki sem hefur leitt okkur býsna vel í gegnum margar þær áskoranir sem við búum við í vályndri tíð. Önnur ástæðan gæti verið fjársveltið eins og hér hefur komið fram, að við höfum einfaldlega ekki efni á þessu lengur, að við stöndum ekki undir þeim kröfum og væntingum sem til okkar eru gerðar sem stjórnvalds eða þá að það býr einhver snilld þarna á bak við, þ.e. að í óundirbúnum fyrirspurnatíma á eftir, þar sem ég hygg að hæstv. dómsmálaráðherra fái fyrirspurn um málið, komi hann með lykillausnina, að það eigi að gera þetta einhvern veginn betur, á betri hátt. Ég hlakka til að heyra þær skýringar.

Ég ætla (Forseti hringir.) að klykkja út með því að segja: Það má ýmislegt segja um verk dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) en ég hef ekki reynt hann að því að hafa ekki áhuga á öryggis- og varnarmálum. Ég ætla líka að nýta mér tímann hér og taka undir (Forseti hringir.) með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: Það er með ólíkindum að utanríkismálanefnd þingsins skuli aldrei hafa fundað sjaldnar en hún gerir nú á þeim tímum sem við lifum. Ég óska eftir breytingu þar á, hæstv. forseti, að utanríkismálanefnd átti sig á hlutverki sínu hér.