153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég tel alveg ljóst hvers vegna hæstv. dómsmálaráðherra telur þörf á að grípa til þessa neyðarúrræðis í ljósi fjárskorts. Það er vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra er loksins búinn að gera sér grein fyrir því að það frumvarp sem hann hefur lagt fyrir þingið, um breytingar á lögum um útlendinga, mun ekki leiða til skilvirkni og minni kostnaðar fyrir ríkissjóð heldur þvert á móti. Þvert á móti mun það leiða til meiri kostnaðar og minni skilvirkni. Þetta mun verða rándýrt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og íslenskan ríkissjóð og einhvers staðar þarf að sækja peningana. Og hvert verða þeir sóttir? Í öryggi landsmanna. Þetta er í alvörunni það sem ég tel að sé að gerast hér.