153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Án þess að fara í efnislega umræðu um þetta vil ég bara hvetja hæstv. forseta til að skapa okkur þingmönnum á þessum vettvangi svigrúm til að ræða varnir landsins og tengd mál. Það fellur auðvitað undir eina af frumskyldum ríkisins að sinna vörnum og eftirliti í landhelginni og þar fram eftir götunum. Ég held því að það væri vel við hæfi, hæstv. forseti, að umræðu um þessi mál verði komið fyrir á dagskrá þingsins við fyrsta hentugleika.

Ég veitti því ekki athygli eða áttaði mig ekki á því í umræðum um nýsamþykkt fjárlög að þessar afleiðingar yrðu komnar fram í byrjun febrúar, nokkrum vikum seinna. En mér segir svo hugur að tekjurnar af sölu þessarar flugvélar og sparnaði í rekstri hrökkvi ekki til nema brotabrots af fjáraustrinum í borgarlínu, svo við setjum þetta í samhengi. Það má því víða ná fram sparnaði þótt sú vél sem best gagnast til að vakta landhelgi landsins sé ekki seld.