153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við höfum rætt örlítið um stöðuna í heiminum og stríð í Evrópu, en flugvélin er auðvitað líka öryggistæki hér innan lands. Svo ég vitni nú í einn af okkar færustu sérfræðingum, Magnús Tuma Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, þá líkir hann þessu við það að lögreglan seldi alla bíla sína og færi fótgangandi í útköll. Það er fullkomlega eðlilegt að dómsmálaráðherra, ef hann selur eina tæki Landhelgisgæslunnar sem hægt er að nota í slíkar aðgerðir, tilkynni þinginu um það, að hann kynni það fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd. Ég hef óskað eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd verði með utanríkismálanefnd á fundi í komandi viku ef formanni utanríkismálanefndar hugnast að halda fund, en a.m.k. verður hv. allsherjar- og menntamálanefnd boðuð til fundar um þetta mál. (Forseti hringir.) Þetta er grafalvarlegt mál. Við höfum horft á eldgos og jarðskjálfta og jarðhræringar undanfarin ár. Við höfum leitað að fólki á hafi úti. Þetta er ótrúleg ráðstöfun.