153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með mörgum sem hér hafa talað, að þau komi á óvart þessi áform sem hér eru fyrirhuguð og ekki síst í ljósi þess að við erum nýbúin að fjalla um og samþykkja fjárlög. Ég hefði gjarnan eins og margir aðrir hér viljað vita af þessari stöðu, að þetta væri á döfinni og hvort við hefðum getað tekið ákvörðun um það á Alþingi að bregðast með einhverjum hætti við því. Ég mun því boða til fundar í fjárlaganefnd á morgun og mun óska viðveru dómsmálaráðherra og Landhelgisgæslunnar til þess að við getum farið yfir þetta mál og rætt það ofan í kjölinn. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt. Þetta er allt of stórt til þess að það fari í gegn og ég man svo sem ekki eftir söluheimild vegna þessarar flugvélar í fjárlögunum þannig að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þetta í nefndinni og það strax á morgun.