153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[11:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr því sem kemur fram í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar:

„Að mati Ríkisendurskoðunar hafði útleiga á TF-SIF til erlendra verkefna dregið úr landamæraeftirliti, eftirliti á djúpslóð og komið niður á viðbúnaði vegna leitar og björgunar. Til að bæta úr stöðunni þyrfti vélin að sinna verkefnum hérlendis allt árið og áhöfnum hennar að fjölga úr tveimur í þrjár.“

Síðan er vitnað í mat Landhelgisgæslunnar sem er að það væri mikilvægast í því skyni að auka eftirlit TF-Sifjar með því að tryggja viðveru hennar hér á landi og mönnun allan sólarhringinn. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að viðvera TF-Sifjar hér á landi verði aukin svo stofnunin verði betur í stakk búin til að uppfylla meginhlutverk sitt sem er að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu umhverfis Ísland. Hæstv. dómsmálaráðherra bregst við þessu og selur vélina. Það er sem sagt niðurstaða hæstv. dómsmálaráðherra, bein niðurstaða og ákvörðun, að veikja þessa þætti. (Forseti hringir.) Þetta virðist gert án þess að það eigi sér eitthvert samtal hér stað, greinilega, augljóslega, á milli stjórnarflokkanna. (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum geta menn sætt sig við að þetta sé með þessum hætti?