153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð nú í fyrsta lagi að segja að mér finnst ekki heil brú í þessum málflutningi hér (Gripið fram í.) og það er byrjað á því að leggja fólki orð í munn sem hafa bara einfaldlega ekki fallið, t.d. af mínum vörum, bara langt því frá. Hér er annars vegar sagt að það bara gangi ekki að ríkið láti gjaldskrárhækkanir fylgja verðlagi. Reyndar hækkuðu gjaldskrár ríkisins um 7% í því sem við sjáum núna að er 10% verðbólga. Gjaldskrárnar eru þess vegna að rýrna að verðgildi um þessar mundir. Og svo hins vegar er sagt: Hvað ætla menn að gera? Staðreynd málsins er sú að ef ríkið lætur t.d. gjaldskrá sína rýrna verulega að verðgildi í þessari verðbólgu þá er ríkisstjórnin ekki að hjálpa neitt til við verðbólguna.

Áhrif gjaldskrárhækkana núna um áramótin voru fyrirséð. Þau eru mælanleg og lágu fyrir þinginu. Þau eru á bilinu 0,4–0,5% af þessari verðbólgu sem er upp á 9,9%. Það sem við vitum um stöðuna í dag er að skattar lækkuðu um 6 milljarða um áramótin vegna hækkunar á persónuafslætti og hækkunar á þrepamörkum í tekjuskatti. Því er spáð að hinn almenni vinnumaður muni hafa u.þ.b. 50.000 kr. meira á milli handanna á mánuði á þessu ári vegna launahækkana og skattalækkana um áramótin — 50.000 kr. meira á mánuði, að kaupmáttur haldi áfram að vaxa. En verðbólgan er áhyggjuefni og ég tek undir með hv. þingmanni um það. Það er hins vegar mikill misskilningur að meginsökudólgurinn í því efni sé ríkissjóður, mikill misskilningur. Ég ætla að nefna eina staðreynd. Laun hafa á síðustu 12 mánuðum hækkað um 12,4% á Íslandi. Það er launavísitalan desember 2021 til desember 2022. Það eru ósjálfbærar launahækkanir. Það er algerlega ljóst að m.a. ríkissjóður og sveitarfélögin sem þurfa að rísa undir slíkri launaþróun verða á útgjaldahlið sinni að hafa einhverjar forsendur á tekjuhliðinni. Það birtist m.a. í því að menn verða að hafa tekjur, til að mynda í gegnum gjöld. Það er algerlega fráleitt miðað við þann afkomubata sem hefur verið á ríkissjóði ár frá ári að við séum ekki að stíga í takt við Seðlabankann.