153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[11:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Það er bara þannig að fyrir jól þá varaði seðlabankastjóri eindregið við þessu og sagði: Ég hef þungar áhyggjur af þessum miklu og stjórnlausu útgjöldum. Hann hafði það. Og ríkisstjórnarflokkarnir fóru einmitt í það að vinna gegn verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. En þetta er bara allt saman einn stór misskilningur: Þetta er vinnumarkaðnum að kenna. Þetta er almenningi að kenna, bara einn stór allsherjarmisskilningur. Ég man ekki eftir jafn mikilli afneitun fjármálaráðherra og ég er alveg viss um að fjármálaráðherra harðkjarna vinstri stjórnar hefði ekki getað gert betur. Seðlabankinn er að misskilja þetta. Og ef það verður vaxtahækkun í næstu viku þá er hún algerlega í boði þessarar ríkisstjórnar. Viðskiptablaðið segir m.a. í gær, sem ég hélt nú að Sjálfstæðisflokkurinn læsi nokkuð reglulega: Verðbólga og vextir eru algerlega í boði þessarar ríkisstjórnar út af þessum stanslausu útgjöldum sem hún stendur fyrir og eru í hennar boði. Hún er að vinna gegn verðbólgumarkmiðunum. Milton Friedman, sem ég hélt einmitt líka að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einu sinni þekkt, sagði einmitt: Verðbólga er ekki vinnumarkaðnum að kenna. Verðbólga er ekki launþegahreyfingunni að kenna. Verðbólga er ekki almenningi að kenna. Hún er ríkisstjórninni að kenna sem hefur ekki hemil á ríkisútgjöldum. Hennar er ábyrgðin. Í guðanna bænum farið að horfast í augu við eigin ábyrgð á eigin gjörðum einhvern tímann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)