153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[11:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það sem við leggjum aðaláherslu á í störfum ríkisstjórnarinnar er að styðja við og bæta lífskjör þjóðarinnar. Það hefur gengið afskaplega vel, það hefur gengið betur heldur en annars staðar. Við sjáum það á öllum hagtölum að staða heimilanna er sterk. Eiginfjárstaða hefur batnað mikið. Kaupmáttur heldur áfram að vaxa, meira að segja í þessari verðbólgu. Ef Seðlabankinn hefur ekki áhyggjur af launahækkunum á Íslandi upp á 12,4% á síðasta ári þá er mér illa brugðið. Ef menn halda að 4% launahækkun í desembermánuði einum árið 2022 sé minna áhyggjuefni heldur en það að við fullfjármögnuðum heilbrigðiskerfið í ljósi stöðunnar, við 2. umr. fjárlaga, upp á um 17 milljarða, þá held ég að menn séu á miklum villigötum. Við mættum að fullu þörf heilbrigðiskerfisins við 2. umr. fjárlaga sem var skynsamleg ráðstöfun en hérna eru menn í raun og veru að segja að við hefðum átt að sleppa því, (Forseti hringir.) þessi viðbótarútgjöld við 2. umr. hafi verið slíkt áhyggjuefni að við hefðum átt að sleppa því. (Forseti hringir.) Það var sagt hér í þessum ræðustól. Á móti því skipti engu máli þótt launin hækki og hækki í hverjum mánuði, það muni ekki enda í verðbólgu eins og hagfræðibækurnar sýna, reynsla okkar sýnir og annarra þjóða.