153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi Sæbrautarstokkinn þá er alveg ljóst að í upphaflegum áætlunum var ekki gert ráð fyrir jafn kostnaðarsamri uppbyggingu á stokk eins og nú er verið að horfa til og það er alveg sjálfstæð ákvörðun að ákveða hvort slík framkvæmd á að fjármagnast inn í Betri samgöngum eða með öðrum hætti. Það er alveg augljóst að þó að menn uppfæri kostnaðaráætlanir þá verða engir nýir peningar til við það, þvert á móti verður brekkan brattari og verkefnið getur tekið lengri tíma. Reyndar er höfuðborgarsáttmálinn á eftir áætlun eins og sakir standa. Það hefur legið fyrir lengi að við eigum eftir að taka margar grundvallarákvarðanir. Þó hafa verið tekin ákveðin skref, eins og t.d. með framsali Keldnalandsins sem við höfum vonir til þess að geti orðið enn verðmeira en við lögðum upp með í upphafi. En við eigum eftir að taka mjög stórar ákvarðanir eins og þær hvort ríkissjóður eigi að leggja félaginu beint til fjármagn eins og gert er ráð fyrir í höfuðborgarsáttmálanum að hægt sé að gera. Eða á eingöngu að treysta á gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna þær framkvæmdir sem sáttmálinn geymir? Hvernig eigum við að fást við þessa tímalínu? Það verður ekki til neitt aukafjármagn, eins og ég sagði, við það að uppfæra kostnaðaráætlanir. Við þurfum að taka afstöðu til þess hvort tímalínuna þurfi að endurskilgreina.

Þegar á heildina er litið tel ég einfaldlega orðið algerlega nauðsynlegt að uppfæra höfuðborgarsáttmálann sem við getum sagt að hafi farið úr gömlum 2019 krónum, í kringum 120 milljarða, og liggur núna á verðlagi ársins í ár, að teknu tilliti til hærri kostnaðar, í kringum 180 milljarða. Framlag sveitarfélaganna inn í þessa 180 milljarða er um 18 milljarðar. Restin eru fjármögnunarleiðir sem ríkið mun þurfa að sjá um. Þessi umræða öll tengist auðvitað líka endurskoðun á tekjustofnum ríkisins vegna eldsneytis og umferðar í landinu og við þurfum að tryggja að við komum út með sem einfaldast og skilvirkast kerfi.