153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[11:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú tilkynnt um sölu á einu flugvél Landhelgisgæslunnar. Gæslan hefur rekið flugvél síðustu 70 ár en hefur ekki lengur efni á því að mati hæstv. ráðherra. Flugvélin hefur verið notuð til að hafa eftirlit með lögsögunni, við fiskveiðieftirlit, almannavarnir sem viðbragð við náttúruvá, já, til að geta brugðist við óvæntum hlutum í okkar lögsögu. Þessi bráðaaðgerð hæstv. dómsmálaráðherra við óráðsíu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum er, ef marka má orð prófessors í jarðeðlisfræði, Magnúsar Tuma Guðmundssonar, eins og ef lögreglan myndi selja alla bílana sína og fara gangandi í útköll. Þetta er sambærilegt, herra forseti. Björgunarsvæðið í kringum Ísland sem Gæslunni ber að sinna er 1,9 milljón ferkílómetrar að stærð, það er jafn stórt og öll Sádi-Arabía eða allt Mexíkó. Væntanlega ætlast hæstv. ráðherra til þess að Landhelgisgæslan sinni öllu sínu nauðsynlega eftirliti á svæðinu með þyrlum sínum, sem er ómögulegt, eða með varðskipum sínum, sem er einnig ómögulegt. Við erum örþjóð en við verðum að tryggja nauðsynlegar varnir, ekki síst á tímum stríðs í Evrópu, en við verðum einnig að sinna eftirliti, eins og áður sagði, sem og að fylgjast með náttúruvá, hvort sem það er veður, skriðuföll, snjóflóð eða eldgos. Það er með öllu óboðlegt að ríkisfjármálastefna ríkisstjórnarinnar leiði til þess að Landhelgisgæslan eigi að selja einu flugvélina sem hún býr yfir til að minnka rekstrarkostnað en vélin var keypt eftir ítarlega fjögurra ára þarfagreiningu. Ríkisstjórnin ætlar sem sagt að selja grunninnviði sem fjárfest hefur verið í til að eiga fyrir rekstri. Hvað ætla þau að gera eftir þrjú, fjögur ár? Hvernig ætla þau að halda áfram? Við gátum haldið þessu svona í gegnum alls konar hremmingar en núna á bara að selja þetta allt saman. (Forseti hringir.)

Hvernig sér hæstv. dómsmálaráðherra fyrir sér að Landhelgisgæslan geti sinnt sínum lögbundnu störfum eftir sölu á þessari vél og hvers vegna kynnti hann ekki fyrirætlun sína hér fyrir Alþingi, í nefndum Alþingis og í þingsal?