153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sveigjanleg starfslok.

[11:34]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar uppbyggilegar umræður hér og við mættum jafnvel sjá svolítið meira af þessu. Mig langar aðeins að fara inn á hækkun lífaldurs þjóða, þetta er að gerast mjög víða um heim allan. Ég minntist á Japan en það er ekki bara Japan, það er Þýskaland og Ítalía. Ítalía er í mjög erfiðri stöðu, þar eru ríkisskuldir mjög háar, 140% af vergri landsframleiðslu meðan þær eru í kringum 30% hér á Íslandi og því er hreinlega haldið fram að hagkerfið þar sé ekki sjálfbært vegna þess að þeir fjölga sér ekki og það er ekki farið í kerfisbreytingar á vinnumarkaðinum sem felast í því að hækka aldur þeirra sem stunda atvinnu. Ég tel að Ísland hafi hér verið mjög framarlega í flokki og oft verið á undan kúrfunni með margar kerfisbreytingar og þetta er klárlega kerfisbreyting sem við eigum að fara í og ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja þetta til.