Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

frumvarp til útlendingalaga.

[11:36]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Umræðan um útlendingafrumvarpið hefur verið vægast sagt aumkunarverð. Málefnaleg gagnrýni Pírata hefur ítrekað verið kölluð málþóf og væntanlega lítur það þannig út þegar meiri hlutinn neitar að taka þátt í lýðræðislegri umræðu hér í þingsal. Raunin er sú að umsagnir um frumvarpið voru alger áfellisdómur og þetta vita stjórnarliðar. Yrði frumvarpið að lögum yrði tímafrestur á málsmeðferð umsókna barna á flótta gerður að engu. Stjórnvöldum yrði kleift að vísa börnum úr landi, jafnvel eftir margra ára dvöl, jafnvel þótt þau hefðu fest hér rætur á meðan umsókn þeirra um vernd velktist um í kerfinu árum saman. Þetta yrði þeim heimilt á grundvelli þess að einhver aðstandandi barnsins væri talinn hafa átt þátt í að niðurstaða fékkst ekki innan tímamarka.

Í umsögn Barnaheilla segir að með öllu sé ótækt að búa svo um hnútana að tafir sem rekja megi til athafna annarra geti komið niður á því hvort umsókn barns hljóti efnislega meðferð hér á landi. Að sama skapi lýsti UNICEF því yfir að það stríddi gegn bæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum að börn væru látin líða fyrir athafnir annarra. Þetta brýtur bókstaflega gegn réttindum barna. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hefur verið fullgiltur og lögfestur á Íslandi, ber okkur að tryggja að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Það gefur augaleið að hér er þessari skyldu ekki fylgt eftir.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hvernig hann getur með góðri samvisku stutt þetta lestarslys sem dómsmálaráðuneytið kallar frumvarp. Þarf ráðherrann ekki að standa vörð um réttindi barna á flótta og allra barna sem hingað koma?