Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

546. mál
[11:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Formaður allsherjar- og menntamálanefndar kom eitthvað í fram í fjölmiðlum í morgun sá ég, það er kannski síðan í gær, það er óljóst. Hann sagði að Píratar stjórnuðu ekki dagskránni hér á þingi. Það er alveg rétt, það er meiri hlutinn, það er forseti sem stýrir dagskránni og ákveður að setja þetta mál á dagskrá. Við erum að fjalla um hversu rosalega slæmt mál þetta er og í þeim tilgangi er ég að fara yfir umsagnir um málið til þess að fólk sjái skýrt og greinilega hvað við erum að fjalla um.

Ég á síðan eftir seinna í umræðunni að fara aðeins yfir flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það virðast greinilega ekki allir hafa áttað sig á því hver grundvöllurinn að þessu öllu er þannig að við þurfum að fara aðeins yfir það líka. Það er nóg að gera og um nóg að spjalla á eftir, því var sleppt í nefndinni og við tökum því bara umræðuna áfram hér. Þetta snýst ekkert um að stjórna dagskrá þingsins eða neitt svoleiðis. Þetta snýst einfaldlega um að ræða efnislega málið, í hvaða stöðu það er, í hvaða stöðu meiri hlutinn skilaði því frá sér hingað inn í þingsal og setja það sem fyrsta mál á dagskrá, á undan öllum öðrum málum. Þetta er forgangsröðun sem er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, á ábyrgð forseta. Það er forseti sem stjórnar dagskránni og setur þetta mál númer eitt á dagskrá, mjög einfalt.

Ég var búinn að fara aðeins yfir umsagnirnar svona í stóru myndinni. Ég fór í gær yfir umsagnir Barnaheilla og landlæknis. Við erum að tala um ágætlega svarta umsögn landlæknis sem er ekki einhver pólitísk félagasamtök eða neitt svoleiðis. Þetta eru umsagnir sem við ættum alla jafna að taka mark á. Við rýnum umsagnirnar að sjálfsögðu og skoðum sjónarhornin þar. Það eru ekki allar umsagnir alltaf fullkomnar og þar eru ákveðin sjónarhorn sem þarf stundum að taka tillit til í víðara samhengi en þessar umsagnir eru frekar skýrar hvað það varðar.

Í annarri umsögn frá Hafnarfjarðarbæ — en það eru sveitarfélögin sem sjá um rosalega stóran hluta af þeirri þjónustu sem verið er að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd og líka þeim sem hafa fengið alþjóðlega vernd. Það er alveg þess vert að hlusta á sveitarfélögin í þessu máli.

En í umsögn Hafnarfjarðarbæjar segir, með leyfi forseta:

„Frestun réttaráhrifa hefur gert það að verkum að Útlendingastofnun getur ekki tekið til skoðunar að endurupptaka mál þó svo talsmenn og/eða við bendum á virkilega slæmar kringumstæður hjá fjölskyldum vegna barnaverndarmála eða annarra kringumstæðna. Þannig sjáum við mál festast í kerfinu og enginn sjáanlegur endir er á málsmeðferð. Teljum við því þurfa að skoða vel mál sem komin eru út fyrir málsmeðferð á stjórnsýslustigi enda getur ekki sú biðstaða sem fjölskyldur eru settar í, sér í lagi börn, staðist barnasáttmálann og önnur lög sem sett eru í þágu barna.“

Nú var verið að spyrja hæstv. mennta- og barnamálaráðherra um skoðun hans á þessu. Það á bara að setja einhverja reglugerð. Við settum kosningalög undir lok síðasta kjörtímabils. Þar átti að setja reglugerð. Eftir því sem ég best veit er ekki enn búið að setja hana. Það gerði það að verkum að það var í raun engin skilgreining á því hvað ætti að gera ef brotið væri á ákveðnum greinum kosningalaga. Það virðist hafa valdið því að þau sem höfðu talið atkvæði og áttu að greiða sektir, vegna vanrækslu við talningu atkvæða í Borgarnesi, hafi sloppið við það. Það er pínulítið óljóst enn. Við erum líka að glíma við það í lögum um opinber fjármál að búið er að setja fullt af reglugerðum vegna þeirra. Ekkert að gerast, ekkert að gerast. Ráðherra segir bara: Já, við verðum að setja reglugerð. Við erum með fullt af dæmum um það að þær eru ekki settar.

Þetta er rosalega alvarleg staða því það er verið að setja skerðingu á þjónustu eftir 30 daga. Að þeim tíma liðnum, um leið og það er komið á, ætti reglugerð að vera tilbúin. Það væri mjög eðlilegt að reglugerð myndi jafnvel fylgja þessu frumvarpi þannig að þetta sé allt tilbúið þegar það er samþykkt á þingi. Þá er bara allt komið; stimplað og tilbúið.

Nei, eins og allt annað í þessu máli þá er þetta vanreifað, það er ekki búið að koma til móts við umsagnir. Það er ekki tilbúið og öllu reynt að redda seinna. Á meðan munum við lenda í svona málum og jafnvel áfram þrátt fyrir tilraunir eða góðan vilja mennta- og barnamálaráðherra. (Forseti hringir.) Dæmin sýna einfaldlega að svo sé.