Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætlaði í ræðu minni að klára yfirferð mína á mannréttindasáttmála Evrópu. En vegna tíðinda, og vegna þeirrar umræðu sem var hér fyrr í dag, um ákvörðun dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, að selja flugvél Landhelgisgæslunnar TF SIF, væntanlega til að geta fjármagnað rafbyssuvæðingu eða eitthvað annað, þá langar mig að ræða aðeins hvernig sú vél og rekstur hennar, og það sem hún hefur verið að gera, tengist því máli sem við erum að tala um núna og hvers konar tvískinnungur er hjá ráðherra í þessum málaflokki.

Hafandi verið í viðbragðsgeiranum hér á Íslandi í tæp 30 ár verð ég samt sem áður að byrja á því að segja að það er risastórt áfall fyrir viðbragðsgeirann á Íslandi að þessi flugvél verði seld úr landi. Við getum ekki lengur notið góðs af þessari flugvél, t.d. til að fá góðar upplýsingar um hvað er að gerast þegar eldgos er að byrja, þegar eldgos hafa hafist. Það þýðir ekkert hjá ráðherra að segja: Það er nóg til af flugvélum á Íslandi. Já, það er fullt til af flugvélum en ekki flugvélum með þau tæki og tól sem þarf til þess að geta fylgst með náttúruhamförum eins og eldgosum, þau tæki eru bara í TF SIF. Það er eitt.

Við getum líka rætt um þjóðaröryggishlutann, það að við erum ekki með flugvél sem getur fylgst með hafsvæðinu í kringum Ísland þar sem við vitum að rússneskir kafbátar eru að sigla. Við getum líka rætt um það að þetta er ein af eftirlitsflugvélum okkar sem er notuð til að vernda landhelgina okkar. En það er greinilegt að ráðherra er alveg sama þótt vinir hans í sjávarútveginum séu að brjóta eitthvað úti í hafi. Það er gott að vera þá ekki með eftirlitsvélar. Já, við getum rætt um allt þetta.

En af því að við erum að ræða frumvarp um útlendinga þá er mikilvægt að átta sig á því hvaða hlutverki þessi flugvél hefur gegnt þegar kemur að fólki á flótta. Vélin hefur, á þeim erfiðu tímum sem við höfum verið að ganga í gegnum í heimsfaraldrinum, verið nýtt, aðallega við Miðjarðarhaf, til þess að fylgjast með fólki á flótta sem oftast er að reyna að fara á ónýtum bátum yfir Miðjarðarhafið til þess að komast á stað þar sem það getur sótt um hæli, t.d. til Ítalíu eða Grikklands.

Ef það væri markmið ráðherra að draga úr fjölda fólks á flótta sem kemur hingað og sækir um alþjóðlega vernd þá er þessi flugvél búin að vera útvörður Schengen í því að finna þessa báta sem eru á flótta, snúa þeim við í mörgum tilfellum, en þegar bátarnir eru komnir inn í lögsögu Evrópu þá tilkynnir þessi vél björgunarskipum og strandgæslu Evrópuríkjanna hvar bátarnir eru. Þar með hefur þessi flugvél bjargað tugum ef ekki hundruðum mannslífa, jafnvel þúsundum mannslífa, við Miðjarðarhaf. Afsakanir ráðherra þess efnis að vélin hafi verið nýtt erlendis — hún var þó alla vega nýtt í einhverju sem sneri að hans málaflokki og aðstoðaði við að draga úr flóttamannastraumnum til Íslands. En nei, það vill ráðherra ekki gera heldur vill hann bara selja, selja, selja; kannski vegna þess að Gæslan hafi neitað honum um að nota þessa flugvél sem einkaflugvél rétt eins og hann notaði þyrlurnar.