Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Enn og aftur í samtölum við samstarfsfólk styrkist ég í þeirri trú minni að þingmenn meiri hlutans hér, og jafnvel ráðherrar, sem eru líka þingmenn, viti ekki hvað þeir eru að samþykkja. Það er ekki af því að þau hafi ekki lesið málið, sumir hafa mögulega ekki lesið það, treysta mati sinna kollega, öðrum hafa kannski yfirsést hlutir sem eru laumulegir í frumvarpinu, en það styrkir mig í þeirri trú að það sé raunveruleg þörf á því að fara yfir þetta frumvarp lið fyrir lið á mannamáli, og einfaldlega útskýra það, þannig að ég mun halda því áfram.

Ég var komin í 6. gr. frumvarpsins sem er eitt gagnrýndasta ákvæðið í frumvarpinu. Það varðar þjónustusviptingu, sem sagt væntanlega þjónustusviptingu eftir 30 daga, 30 dögum eftir lokasynjun á stjórnsýslustigi. Í umræðum um þetta er því er haldið fram, og ekki bara í umræðum, í greinargerð með þessu ákvæði í frumvarpinu er því haldið fram að þetta sé til að samræma okkar verklag við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Ég þóttist hins vegar vita að þetta væri ekki framkvæmdin eða löggjöfin á Norðurlöndum þannig að ég fór bara og kannaði það. Það sem ég var búin að fara yfir var staðan í Danmörku. Danmörk er almennt ekki þekkt fyrir að vera, hvað skal segja, opnasta Norðurlandaþjóðin þegar kemur að útlendingum og flóttafólki og þau hafa raunar verið gagnrýnd fyrir að vera nokkuð hörð og að fá hugmyndir sem fara svolítið yfir strikið. Upp hafa komið hugmyndir um að taka skartgripi og annað af flóttafólki til að fjármagna uppihald þeirra og annað þannig að það má ætla að sú framkvæmd og löggjöf sem er í Danmörku sé ein sú strangasta á Norðurlöndunum. Það ætti því kannski að koma einhverjum á óvart að í Danmörku missir fólk aldrei á neinum tímapunkti réttinn á því að hafa þak yfir höfuðið, að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og nauðsynlegan mat í maga. Það sem verið er að leggja til með þessu frumvarpi hér gengur því lengra heldur en alla vega er í Danmörku.

Ég ætla að fara núna yfir stöðuna í Svíþjóð. Við ætlum að skoða hvort það sé Svíþjóð sem verið er að apa eftir hérna. Til samanburðar er gagnlegt að fara yfir það hvaða þjónusta það er sem við erum að tala um. Þjónustan sem við erum að tala um hérlendis er þak yfir höfuðið, sem getur falist í herbergi, með fleira fólki jafnvel, sem eru augljóslega mjög erfiðar búsetuaðstæður til lengri tíma; nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, sem er jafnan ansi þröngt skilgreind þótt það sé metið í hverju tilviki fyrir sig; og 10.400 kr. á viku, sem eiga að duga fyrir öllum nauðsynjum, matvöru og hreinsiefnum, snyrtivörum og hvaðeina. Líkt og ég fór yfir í gær er fólki í Danmörku útvegað megnið af þeim nauðsynjum sem fólk þarf en það fær vasapening gegn því að uppfylla ákveðnar skyldur. Þannig er kerfið í Danmörku.

Ég ætla að fara yfir það hvernig þetta er í sænskum lögum og sænskri framkvæmd. Byrjum á að fara yfir þá þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga í Svíþjóð. Í Svíþjóð eiga umsækjendur þess kost að búa á eigin vegum, t.d. hjá ættingjum eða vinafólki í landinu, á meðan beðið er niðurstöðu vegna umsóknar um alþjóðlega vernd og þá bera umsækjendur sjálfir húsnæðiskostnað. Þetta er svo sem svipað hér á landi þó að það sé kannski ekkert gríðarlega algengt að fólk eigi fjölskyldu hér fyrir, en þó. Séu umsækjendur ekki færir um að útvega sér sjálfir samastað er það gert af hálfu innflytjendastofnunar Svíþjóðar, Migrationsverket. Umsækjanda um alþjóðlega vernd ber að þiggja það húsnæði sem honum er úthlutað. Það er enginn valkostur í boði og það má vera að umsækjandi sé beðinn um að flytja sig um set meðan á umsóknarferlinu stendur. Húsnæði er eingöngu ætlað umsækjendum og öðrum en þeim er óheimilt að búa þar. Gert er ráð fyrir að umsækjendur sjái sjálfir um þrif í híbýlum sínum.

Nú er ég fallin á tíma eina ferðina enn þar sem ræðutíminn í þessum hluta er einungis fimm mínútur en ég mun bara halda áfram þar sem frá var horfið í minni næstu ræðu og óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.