Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég var hér að fara yfir umsögn Amnesty International. Við sjáum á samskiptamiðlum að það er aðeins verið að fjalla um þetta mál. Fólk hefur bæði áhuga og áhyggjur af þessu, skiljanlega, því að þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur. Við höfum t.d. fengið athugasemdir eins og að það væri nú óskandi að Píratar fókuseruðu meira á og væru að berjast fyrir réttindum láglaunafólks sem ekki nær endum saman. Það gerum við vissulega. Ég hef t.d. verið að sækja það mjög lengi að almannatryggingar fylgi í alvörunni 69. gr. almannatryggingalaga, um að hækkanirnar verði að lágmarki til jafns við verðbólgu eða launaþróun, hvort sem er hærra, ekki lægra eins og verið hefur. Ég ætla bara að fullyrða að sú barátta mín og þær upplýsingar sem ég hef tekið saman með hjálp rannsóknarþjónustu Alþingis, til að sýna hvernig almannatryggingar hafa ekki haldið í við launaþróun — þær hafa rétt rúmlega haldið í við verðlagsþróun sem er þó jákvætt en þær eiga a.m.k. líka að halda í við launaþróun. Þær hafa ekki gert það, ég hef bent á það aftur og aftur. Ég benti á það á síðasta kjörtímabili að það væri í raun heilt ár af launahækkunum sem þiggjendur almannatrygginga hefðu misst af, og þetta er á tímabili lífskjarasamningsins. Ég held að þetta hafi haft mikil áhrif á það að ríkisstjórnin tók fyrir síðustu fjárlög ákvörðun um að hækka afturvirkt miðað við vanáætlaða verðbólgu. Við berjumst því tvímælalaust fyrir réttindum láglaunafólks, þeim allra lægstu, mjög mikið. Ég hef t.d. líka bent á að í lögum um almannatryggingar er galli, það er galli í þeim sem hefur tekjur af fólki en enginn er til í að kvitta upp á það. Kærunefnd velferðarmála, Tryggingastofnun, ráðuneytið segir bara: Nei, nei, þetta er ekki galli. Í greinargerð stendur að þetta eigi að vera öðruvísi. En lögin segja það ekki, það er vandinn. Það er það sama og gerðist hér fyrir nokkrum árum þegar það var misvísun í greinar í frumvarpinu um skerðingar, það var vísað í ranga grein sem þýddi að skerðingarnar ættu ekki við. Þótt það hafi verið sagt í greinargerðinni að þessar skerðingar ættu að eiga við þá stóð það bara ekki þannig í lögunum. Það þurfti að fara í gegnum þingið með leiðréttingu og átti að reyna að leiðrétta afturvirkt af því þetta voru jú mistök. Við Píratar sögðum: Nei, þetta gengur ekki, það má ekki. Frumvarpið var samt keyrt í gegn þrátt fyrir mótmæli og þrátt fyrir viðvaranir um að verið væri að brjóta á rétti fólks. Það fór alla leið í gegnum dómskerfið og það var rétt hjá okkur enn og aftur. Það voru einhverjir 8 milljarðar sem það endaði á, voru 5 milljarðar eða eitthvað svoleiðis á þeim tíma sem við vorum að benda á þetta, en hafði safnast upp og var orðið um 8 milljarðar í lokin, held ég, eitthvað í þá áttina. Svo er líka verið að halda fram í þessu máli að langmest af kostnaðinum við þennan málaflokk, útlendingamál, málefni flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd, fari til lögfræðinga en það er ekki heldur rétt. Ef við tökum kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun, þar sem ansi margir lögfræðingar vinna, þá er það kannski að einhverju leyti rétt en langmest af kostnaðinum við umsóknirnar sjálfar og umsækjendurna rennur til sveitarfélaganna. Ég man ekki á hvaða nefndarfundi þetta var sagt, þegar ég var að spyrja um það í fyrra, og ég held það hafi verið ráðuneytið frekar en Útlendingastofnun, þetta blandast allt saman, þetta er nokkurn veginn sami grauturinn, sömu andlitin í minningunni. En efnisinntakið þar var skýrt, það er langmest verið að greiða til húsnæðis sem sveitarfélögin leigja, það var verið að sjá til þess að þau geti leigt húsnæði. Það endar í raun í húsnæðiskostnaði en ekki í vösum umsækjendanna, það er ekki þannig. Þau eru að fá herbergi nokkur saman. Þetta er ekki boðlegt húsnæði en þetta er alla vega þak yfir höfuðið sem allir á Íslandi ættu tvímælalaust að hafa líka. Það er vandamál sem ríkisstjórnin er ekki heldur að glíma við. Það mál ætti að vera ofar í forgangsröð á lista ríkisstjórnarinnar en þetta mál. Við ættum að vera að ræða það mál en ekki þetta mál. (Forseti hringir.) En ríkisstjórnin ákveður að setja þetta mál fremst í forgangsröðun sína eftir áramót og þess vegna erum við hér að tala um það.