Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða yfirferð á málinu og hlakka til að heyra afganginn af ræðunni. Þingmaðurinn talaði einmitt um stríðsástandið sem hefur aðeins magnast upp á undanförnum árum á nokkrum stöðum í Evrópu og þar í kring sem er svona kjarninn í því ástandi sem við sjáum hér í flóttamannamálum. Við sjáum líka fram á aukningu, t.d. vegna loftslagsmála, og verkefnin í þessum málaflokki eru ærin og alþjóðleg. Maður veltir fyrir sér hvað Íslendingar eru að gera á alþjóðavísu til að reyna að hjálpa til. Þegar við skoðum hins vegar þetta frumvarp þá sjáum við, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur lýst mjög skýrt með dæmum um nokkurn veginn hvert eitt og einasta atriði, að allar þessar lagagreinar eru gerðar til þess að koma til móts við einhverja neikvæða niðurstöðu sem Útlendingastofnun hefur fengið á undanförnum árum í meðhöndlun sinni á málum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun er sem sagt gerð afturreka með einhverja framkvæmd og nú er hún að koma inn með lagabreytingu til að gera þá framkvæmd löglega. Þetta er samansafn af einhvers konar svoleiðis lagabreytingum, engin stór breyting eða kerfisjöfnun eða neitt því um líkt, heldur bara samtíningur atriða sem Útlendingastofnun vill gera en hefur ekki fengið að gera. Þá veltir maður fyrir sér þessum fullyrðingum um að þetta muni nú auka skilvirkni og á mannúðlegan hátt; það er bara sagt, það er ekkert útskýrt. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi náð að átta sig á því hvernig skilvirknin eigi að aukast eða hvernig mannúðin eigi að aukast með þessu frumvarpi.