Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er hárrétt hjá þingmanni, það er þessi spurning um skilvirkni fyrir hvern — fyrir stjórnsýsluna, fyrir umsækjendur, fyrir kerfið eða flóttamannavandann í heild? Það sem mér finnst vera áhugavert, þegar verið er að tala um skilvirknina, er einmitt hvernig því er einhvern veginn sleppt að sýna okkur áhrifin á skilvirknina fyrir þá hópa sem eru að sækja um. Maður hefði ætlað, alla vega er það sagt í frumvarpinu, að allir vilji að þau sem eiga rétt á vernd fái skjóta lausn á sínum málum, en það er ekkert sýnt hvernig það mun gerast. Þetta er kannski nær því að sýna hvernig við getum orðið fljótari að segja nei. Þá lendum við í hættu á að segja nei við einhverja sem eiga í raun og veru rétt á alþjóðlegri vernd af því að við erum svo ofurupptekin við að segja: Þú komst með fölsk skilríki, þú ert úti. Þrátt fyrir að það sé kannski afleiðing þess að viðkomandi er einmitt í slæmri stöðu, hann er kannski ekki (Forseti hringir.) með aðgang að skilríkjunum sínum vegna ofsókna í landinu sínu (Forseti hringir.) og verður að ferðast á fölsuðum skilríkjum og hefur ekkert annað.