Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Fólk á flótta, það pakkar ekki niður í tösku og tekur með sér dót, bara eins og ég og hv. þingmaður þegar við förum í útilegu, það er bara í allt annarri stöðu. Það er kannski að flýja aðstæður sem við hér, í vernduðu umhverfi á Íslandi, getum ekki gert okkur í hugarlund. Mér þykir það ekkert óeðlilegt að sá sem er orðinn ríkisfangslaus leiti til annarra landa á fölsuðum skilríkjum. Það er bara hans réttur sem flóttamanns að koma hingað á fölsuðum skilríkjum, ef það verður síðan staðfest að hann sé að sönnu flóttamaður. Mér þykir það ekkert óeðlilegt og okkur ber að taka tillit til þeirrar stöðu.