Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni þessa yfirferð yfir mjög mikilvæg sjónarmið sem koma fram í umsögnum. Það vekur undrun að ekki hafi verið brugðist meira við þeim. Þingmaðurinn veltir því fyrir sér hvers konar samráð hefði verið viðhaft, hvort tilfinning hans væri rétt um að þetta væri nú eiginlega bara unnið á skrifborði í dómsmálaráðuneytinu án mikils samráðs við þessa sérfræðinga. Já og nei nefnilega, vegna þess að þessar athugasemdir hafa allar legið fyrir á fyrri stigum málsins, í skriflegum umsögnum sem hafa ýmist borist til þingsins eða í samráðsgáttina. Ráðuneytinu hefur alltaf verið í lófa lagið að vinna á jákvæðan hátt úr þessum umsögnum. Það hefur bara tekið einbeitta skýra afstöðu um að gera það ekki og það lýsir ákveðnu hugarfari í ráðuneytinu.

Það sem truflar okkur kannski við þessa umræðu núna er að við erum í fyrsta sinn að sjá það sama gerast af hálfu þingsins. Þessar umsagnir komu til allsherjar- og menntamálanefndar. Meiri hlutinn skoðaði þær allar og tók bara svipaða harðlínuafstöðu til þeirra og dómsmálaráðherra hafði gert á fyrri stigum. Nú er ég búinn að vera lengur hér inni en hv. þingmaður en ég er samt enn að venjast ýmsu. Ég á t.d. mjög erfitt með að venjast tómlætinu, sinnuleysinu, sem birtist í því að geta lesið í gegnum umsagnir sérfræðinga, sem eru vel rökum studdar, sem vísa í alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda, á sviði réttinda barnsins, réttinda fatlaðs fólks — og fólk þykist bara geta sagt: Já, ég er bara ósammála. Síðan kemur hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar og segir að ekki sé verið að brjóta mannréttindi í þessu frumvarpi en leggst gegn því að efni frumvarpsins sé borið upp af sérfróðum aðilum, (Forseti hringir.) sé borið upp við mannréttindaskuldbindingar Íslands. Þingið getur þannig ekki fullyrt þetta (Forseti hringir.) vegna þess að meiri hlutinn lagðist gegn því að fá að vita hvort þessi staðhæfing þingmannsins gæti verið rétt.